Erlent

Tengdasonurinn skráður sem kona

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jared Kushner er einn helsti ráðgjafi Donalds Trump
Jared Kushner er einn helsti ráðgjafi Donalds Trump Vísir/epa
Tengdasonur Bandaríkjaforseta, Jared Kushner, hefur kosið sem kona undanfarin átta ár ef marka má fjölmiðla ytra.

Á kjörskrá í New York, sem miðilinn Wired birti nú í morgun, má sjá að Kushner er sagður vera kvenkyns. Er hann sagður hafa skráð sig fyrir þingkosningarnar í nóvember 2009 og hefur því verið talin kona þar í næstum átta ár.

Kushner, sem jafnframt er einn af aðalráðgjöfum Donalds Trump, hefur ekki tjáð sig um málið og er því enn á huldu hvernig stendur á þessari skráningu. Ekki er þó talið að þetta gæti flokkast sem kosningasvik þar sem bandarísk lög gera ráð fyrir að svikahrappurinn þurfi að fylli út rangar upplýsingar af ásettu ráði.

Sjá einnig: Tengdasonurinn gerði það sama og Trump gagnrýndi Hillary fyrir

Að sama skapi er ekki útilokað að Jared Kushner upplifi sig sem konu, þrátt fyrir að hafa fæðst í líkama karlmanns. Hann hefur þó aldrei gefið neitt slíkt í skyn eða beðið um að notuð séu önnur en karlkyns persónufornöfn þegar um hann er rætt og ritað.

Málið þykir þó einkar vandræðalegt fyrir Kushner sem gegnir margvíslegu hlutverki í Hvíta húsinu. „Hvernig getum við treyst á hann til að koma á friði í Austurlöndum nær ef hann getur ekki einu sinni fyllt út venjulegt skjal?“ er til að mynda haft eftir einum á vef Wired. 

Greint var frá því fyrr í vikunni að Kushner hafi jafnframt notað eigið tölvupóstfang í störfum sínum fyrir Hvíta húsið. Það þótti ekki síður vandræðalegt þar sem Trump hamraði á dómgreindarleysi mótframbjóðenda síns, Hillary Clinton, í kosningabaráttunni í fyrra fyrir að hafa gert slíkt hið sama.

Hér má sjá flokkun Jareds Kushner í gögnum kjörstjórnar í New York.Wired

Tengdar fréttir

Kushner: Framboð Trump var of óskipulagt til að eiga samráð við Rússa

Tengdasonur Donalds Trump Bandaríkjaforseta útskýrði fyrir hópi lærlinga í Bandaríkjaþingi að forsetaframboð tengdaföður síns hafi verið of glundroðakennt til að það hafi getað staðið í samráði við rússnesk stjórnvöld. Blaðafulltrúi Hvíta hússins segir að forsetinn hafi komið að misvísandi yfirlýsingu sem sonur hans gaf út um umdeildan fund með rússneskum lögmanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×