Erlent

Yulia Skripal ekki lengur í lífshættu

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Um tuttugu ríki hafa vísað rússneskum erindrekum úr landi vegna gruns um að rússnesk yfirvöld standi á bak við árásina á Skripal-feðginin.
Um tuttugu ríki hafa vísað rússneskum erindrekum úr landi vegna gruns um að rússnesk yfirvöld standi á bak við árásina á Skripal-feðginin. Vísir/AFP
Yulia Skripal, dóttir rússneska gagnnjósnarans Sergei Skripal, er ekki lengur í lífshættu og er á batavegi. Sergei er enn í lífshættu. Feðginin urðu fyrir taugaeitursárás í enska bænum Salisbury fyrr í mánuðinum.  The Guardian greinir frá. 

Í yfirlýsingu frá Salisbury-sjúkrahúsinu kemur fram að líðan hennar sé nú stöðug. Þá segir yfirlæknir á sjúkrahúsinu, Christian Blanshard, að meðferðin hafi gengið vel og sé hún því á batavegi en haldi áfram að vera undir læknishöndum allan sólarhringinn. Hann hrósaði jafnframt starfsfólki spítalans fyrir skjót og vönduð viðbrögð.

Í gær sagði Viktoria Skripal, frænka þeirra Sergei og Yuliu Skripal, að litlar líkur væru á að feðginin myndu lifa af. Hún greindi einnig frá því að móður Sergei Skripal hefði ekki verið sagt frá málinu. Þau hafi viljað vernda hana og því passað að hún myndi hvorki heyra né sjá neitt um málið.

Um tuttugu ríki hafa vísað rússneskum erindrekum úr landi vegna gruns um að rússnesk yfirvöld standi á bak við árásina á Skripal-feðginin. Yfir hundrað erindrekum hefur því verið vísað frá vestrænum ríkjum en Rússar þvertaka enn fyrir að hafa staðið á bak við árásina.


Tengdar fréttir

Segir litlar líkur á að Skripal-feðginin lifi af

Viktoria Skripal, frænka þeirra Sergei og Yuliu Skripal, segir litlar líkur á að feðginin lifi af en þau urðu fyrir taugaeitursárás í enska bænum Salisbury fyrr í mánuðinum. Viktoria segir batahorfurnar ekki góðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×