Klukkan rúmlega tíu í gærkvöldi fékk lögreglan tilkynningu um slagsmál milli tveggja karla í Breiðholti. Í dagbók lögreglu segir að á vettvangi hafi tveir karlar og ein kona í annarlegu ástandi verið að slást og þau hafi verið með áverka sem þörfnuðust skoðunar.
Fólkið var flutt á slysadeild til aðhlynningar og síðan vistuð í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls.
Rétt fyrir klukkan sex í gær var tilkynnt um umferðarslys í Kópavogi þar sem ekið var á eldri konu sem var gangandi. Talið er að konan hafi misst meðvitund og blæddi frá höfði hennar. Konan var flutt á slysadeild en ekki er vitað meira um meiðsli hennar.
Þá var bifreið stöðvuð í austurbæ Reykjavíkur rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi. Tveir karlmenn í annarlegu ástandi voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna, brot á vopnalögum og þá fóru þeir ekki að fyrirmælum lögreglu. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn máls
Tveir karlar og ein kona flutt á slysadeild eftir slagsmál
Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
