Erlent

Útiloka að andlát Bourdains hafi borið að með saknæmum hætti

Birgir Olgeirsson skrifar
Anthony Bourdain var 61 árs.
Anthony Bourdain var 61 árs. Vísir/Getty
Saksóknari í Frakklandi hefur útilokað að andlát bandaríska kokksins Anthony Bourdain hafi borið að með saknæmum hætti.

Greint er frá þessari yfirlýsingu á vef AP.

Bourdain fannst meðvitundarlaus á hótelherbergi í bænum Kaysersberg í Frakklandi í gær saksóknarinn segir Bourdain hafa fyrirfarið sér.

„Það er ekkert sem gefur til kynna að einhver hafi farið inn á herbergi hans,“ sagði saksóknarinn Christian de Rocquigny við fjölmiðla í dag.

Hann sagði læknisskoðun hafa leitt í ljós að engir áverkar hefðu verið á líki Bourdains sem gefa til kynna að hann hefði verið beittur ofbeldi.

Rocquigny sagði að nú væri fyrir höndum eiturefnarannsókn til að komast að því hvort að Bourdain tók inn einhver lyf eða fíkniefni til að svipta sig lífi.

Bourdain var af mörgum talinn einn merkasti kokkur í heimi og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir afrek á sínu sviði.

Hann vakti fyrst athygli heimsbyggðarinnar með bók sinni Kitchen Confidential: Adventures in the Culinary Underbelly, sem kom út árið 2000, og þá ferðaðist hann um heiminn fyrir hinar ýmsu sjónvarpsstöðvar í gegnum árin við framleiðslu matreiðsluþátta. Þar á meðal eru þáttaraðirnar A Cooks Tour og Anthony Bourdain: No Reservations en sú síðarnefnda hlaut tvenn Emmy-verðlaun.

Bourdain gekk til liðs við CNN-sjónvarpsstöðina árið 2013 og var ellefta þáttaröðin af Parts Unknown frumsýnd á stöðinni í síðasta mánuði.

Þá kom hann í heimsókn til Íslands árið 2014 í fyrstu þáttaröð No Reservations og bragðaði þar hákarl. Hann sagði síðar að hákarlinn væri eitt af því sem hann myndi aldrei leggja sér aftur til munns.


Tengdar fréttir

Segir mikinn missi vera að Bourdain

Bourdain svipti sig lífi í Frakklandi. Var að taka upp tólftu þáttaröð Parts Unknown. Kom til Íslands og gerði þátt sem var sýndur 2005. Sigurður Gíslason matreiðslumaður segir að kynni sín af Bourdain hafi verið afar góð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×