Erlent

Lögmaður klámmyndaleikkonu gæti boðið sig fram gegn Trump

Kjartan Kjartansson skrifar
Avenatti með skjólstæðingi sínum Stephanie Clifford.
Avenatti með skjólstæðingi sínum Stephanie Clifford. Vísir/AP
Michael Avenatti, lögmaður klámmyndaleikkonu sem segist hafa átt í kynferðislegu sambandi við Donald Trump Bandaríkjaforseta, segist íhuga alvarlega að bjóða sig fram til forseta árið 2020.

„Mér er alvara með því að íhuga það. Ég hef ekki tekið ákvörðun um hvað ég geri. Ég tek ákvörðun á næstu vikum. Kannski aðeins lengra en það,“ sagði Avenatti sem er staddur í Iowa þar sem hann hefur hitt áhrifamenn í Demókrataflokknum.

Avenatti hefur verið áberandi í bandarískum fjölmiðlum sem lögmaður Stephanie Clifford, klámmyndaleikkonunnar sem er betur þekkt undir sviðsnafninu Stormy Daniels.

Spurður um hver boðskapur hans væri fyrir kosningarnar eftir tvö ár leggur Avenatti áherslu á mikilvægi þess að standa í hárinu á Trump forseta. Það sé eina leiðin fyrir demókrata að ná Hvíta húsinu aftur, að því er segir í frétt CNN-fréttastöðvarinnar.

Hann muni aðeins bjóða sig fram ef hann telur að mögulegir frambjóðendur demókrata í forvali séu ekki færir um að bera sigurorð af Trump.


Tengdar fréttir

Íhugar framboð gegn Trump

Lögmaðurinn Michael Avenatti, sem varið hefur hagsmuni klámstjörnunnar Stormy Daniels í málarekstri hennar gegn Bandaríkjaforseta, íhugar nú alvarlega að bjóða sig fram gegn Donald Trump, sækist hann eftir endurkjöri í forsetakosningunum árið 2020.

Stormy Daniels handtekin

Klámmyndaleikkonan Stormy Daniels var í nótt handtekin á nektardansstað í Ohio-ríki í Bandaríkjunum að sögn lögmanns hennar, Michael Avenatti.

Segir lögmann Trump vera svín

Michael Avenatti, lögmaður klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels, sendi Rudy Guiliani, lögmanni Donald Trump, kaldar kveðjur fyrir ummæli hans um Daniels.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×