Erlent

Kínverjar sakaðir um að halda milljón Úíghúrum í leynilegum fangabúðum

Kjartan Kjartansson skrifar
Börn Úíghúra í Xinjiang-héraði þar sem kínversk stjórnvöld eru sökuð um að kúga minnihluta múslíma.
Börn Úíghúra í Xinjiang-héraði þar sem kínversk stjórnvöld eru sökuð um að kúga minnihluta múslíma. Vísir/EPA
Sameinuðu þjóðirnar segjast hafa trúverðugar heimildir fyrir því að kínversk stjórnvöld haldi allt að milljón manna sem tilheyra Úíghúraþjóðarbrotinu í leynilegum fangabúðum. Í heildina hafi tvær milljónir Úíghúra og múslíma verið neyddar í innrætingarbúðir í Xinjiang-sjálfsstjórnarhéraðinu.

Gay McDougall, fulltrúi í nefnd Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um útrýmingu kynþáttamismununar, segir margar trúverðugar frásagnir af því að fólki sé haldið í búðum af þessu tagi undir því yfirskyni að berjast gegn trúarofstæki og að viðhalda félagslegum stöðugleika.

Komið væri fram við Úíghúra eins og „óvini ríkisins“ einungis á grundvelli kynþáttar og trúar þeirra. McDougall greindi frá þessu á tveggja daga ráðstefnu um ástand mannréttindamála í Kína.

Kínversk stjórnvöld hafa sagt að alvarleg ógn stafi af herskáum íslamistum og aðskilnaðarsinnum í Xinjiang. Þeir ali á spennu á milli minnihluta Úíghúrfólks sem er múslímatrúar og meirihluta Hanfólks.

Sendinefnd Kína á ráðstefnunni í Genf tjáði sig ekki um ummæli McDougall, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Sendinefnd Bandaríkjanna hjá SÞ lýsti áhyggjum af frásögnunum af meintum ofsóknum kínverskra stjórnvalda gegn minnihlutahópum í Xinjiang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×