Það er enginn möguleiki á því að Jón Dagur Þorsteinsson snúi aftur til Fulham á þessu tímabili. Þetta segir yfirmaður knattspyrnumála hjá danska félaginu Vendsyssel.
Vensyssel fékk Jón Dag til sín á láni í lok ágústmánaðar og er samningur hans við danska félagið út tímabilið. Jón Dagur hefur staðið sig vel með danska liðinu, skorað þrjú mörk og lagt eitt upp í ellefu leikjum.
Frammistaða Jóns Dags hefur leitt til umræðu um að Fulham gæti kallað hann til baka úr láni, en Fulham er í vandræðum á botni ensku úrvalsdeildarinnar.
„Þorsteinsson verður án efa hér í vor líka,“ sagði Glen Riddersholm, yfirmaður knattspyrnumála hjá Vendsyssel, við danska fjölmiðla.
„Hann er ungur og það hefur enginn áhuga á því að hamla þróun hans.“
Riddersholm sagði lánssamninginn ekki innihalda neina klásúlu um forkaupsrétt á Jóni þegar lánssamningurinn rennur út, en félagið vilji halda í Íslendinginn unga.
„Ef hann heldur svona áfram er ljóst að það verður erfitt fyrir okkur að halda honum. En það þýðir ekki að við munum ekki reyna.“
Vendsyssel situr á botni dönsku úrvalsdeildarinnar með 16 stig líkt og Vejle og Hobro. Ein umferð er eftir í deildinni fyrir jólafrí, keppni hefst svo aftur í febrúar.
