Enski boltinn

Rekinn sem slakasti stjóri í sögu ensku úr­vals­deildarinnar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ekki fór það vel hjá Ivan Juric blessuðum á suðurströnd Englands. Hann hefur verið rekinn úr þjálfarastarfi í annað skipti á hálfu ári.
Ekki fór það vel hjá Ivan Juric blessuðum á suðurströnd Englands. Hann hefur verið rekinn úr þjálfarastarfi í annað skipti á hálfu ári. Twitter@SouthamptonFC

Króatinn Ivan Juric hefur yfirgefið lið Southampton sem féll úr ensku úrvalsdeildinni í gær eftir tap fyrir Tottenham Hotspur. Aldrei hefur lið fallið eins snemma úr deildinni.

Southampton hefur náð sögulega slökum árangri í vetur og staðfestist fall liðsins með 3-1 tapinu í gær. Southampton er 22 stigum frá öruggu sæti þegar sjö umferðir eru eftir.

Juric tók við af Russell Martin sem var rekinn í desember. Honum tókst aðeins að stýra liðinu til tveggja sigra, en annar þeirra var í ensku bikarkeppninni. Eini deildarsigurinn var gegn öðrum nýliðum, Ipswich Town, í febrúar. Síðan þá hefur Southampton tapað sjö af átta í deild.

Juric yfirgefur Southampton með slakasta árangur nokkurs stjóra í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, frá 1992. Juric náði aðeins í 0,29 stig að meðaltali í leik. Enginn sem hefur stýrt tíu leikjum eða fleiri í deildinni hefur gengið svo illa að sækja stig.

Hann hefur því verið rekinn í annað skiptið á tímabilinu en Roma sagði honum upp störfum í nóvember.

Óljóst er hver tekur við af Juric. Simon Rusk mun stýra liðinu tímabundið með Adam Lallana, leikmann liðsins, sér til aðstoðar.

Southampton er aðeins með 10 stig á botni deildarinnar og mun þurfa að sækja í það minnsta tvö til viðbótar til að bæta met Derby County frá 2007-08. Derby fékk þá lægsta stigafjölda í sögu deildarinnar er liðið féll með aðeins 11 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×