Innlent

Fundur nefndar um sendi­herra­stöður verður opinn

Atli Ísleifsson skrifar
Óli Björn Kárason er þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Óli Björn Kárason er þingmaður Sjálfstæðisflokks. vísir/vilhelm
Fyrirhugaður fundur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, þar sem fjallað verður um ummæli Gunnars Braga Sveinssonar á Klaustur um skipanir í sendiherrastöður, verður opinn.

Frá þessu greinir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fulltrúi í nefndinni, á Facebook-síðu sinni. Segir hann að nefndin hafi með þessu samþykkt beiðni hans.

Nefndin samþykkti í síðustu viku tillögu Helgu Völu Helgadóttur , formanns nefndarinnar, um kalla þá Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins og Gunnar Braga Sveinsson, þingmann Miðflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, á fund nefndarinnar vegna ummælanna.

Á Klausturfundinum sagði Gunnar Bragi meðal annars að hann hafi sem utanríkisráðherra skipað Árna Þór Sigurðsson, fyrrverandi þingmann Vinstri grænna, sem sendiherra á sama tíma og hann skipaði Geir H. Haarde í sendiherrastöðu til að draga athyglina frá skipan Geirs. Hann hafi sagt við formann Sjálfstæðisflokksins að hann ætti þá inni stöðu hjá Sjálfstæðisflokknum. 

Í færslu Óla Björns segir að í reglum um opna fundi fastanefnda Alþingis sem sendir séu út í sjónvarpi og á vef Alþingis, komi fram að formanni viðkomandi nefndar beri að leita eftir því með hæfilegum fyrirvara að gestur komi á opinn fund og gera honum grein fyrir efni fundarins.

„Þá skulu fjölmiðlar „eiga þess kost að láta fulltrúa sína fylgjast með opnum fundi. Jafnframt skal fundurinn opinn almenningi eftir því sem húsrúm leyfir.“ Ljósvakamiðlum er heimilt að hafa beinar útsendingar frá fundum nefnda sem eru opnir. Ekki liggur fyrir hvenær fundur (fundir) Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar verður,“ segir í færslu Óla Björns.

Guðlaugur Þór og Bjarni Benediktsson hafa staðfest að hafa átt óformlegan fund með Sigmundi Davíð þar sem hann greindi þeim frá áhuga Gunnars Braga á sendiherrastöðu. Þeir hafa þó báðir hafnað því að Gunnar Bragi eigi eitthvað inni hjá Sjálfstæðisflokknum eftir þá skipan.

Sjá má færslu Óla Björns að neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×