Enski boltinn

„Meiðslin“ frá því í ágúst virðast hafa tekið sig upp hjá Coutinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho.
Philippe Coutinho. Vísir/Getty
Philippe Coutinho verður ekki með Liverpool í bikarleiknum á móti Everton og hefur því misst af tveimur fyrstu leikjum liðsins eftir að félagsskiptaglugginn opnaði í byrjun janúar.

Coutinho hefur verið orðaður við Barcelona alveg eins og í síðasta félagsskiptaglugga í ágúst þegar hann glímdi einnig við meiðsli og missti af nokkrum leikjum.

BBC segir að Liverpool búist við öðru tilboði frá Barcelona í leikmanninn en Liverpool hafnaði tilboðum Börsunga í ágúst.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, staðfesti í dag að Philippe Coutinho verði ekki með á morgun ekki frekar en Mohamed Salah sem er líka meiddur. Coutinho ætti hinsvegar að vera orðinn góður fyrir leikinn á móti toppliði Manchester City.

„Ég held að hann verði klár í leikinn á móti Manchester City 14. janúar. Allt sem ég segi núna mun bara búa til sögur. Ég hef því ekkert meira að segja um þetta,“ sagði Klopp.

Bikarleikur Liverpool og Everton hefst klukkan 19.55 annað kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×