Stjórnvöld í Íran hafa sent Sameinuðu þjóðunum bréf þar sem þau saka bandarísk stjórnvöld um „gróf“ inngrip í innri málefni landsins. Mestu mótmæli gegn stjórnvöldum í níu ár hafa geisað í Íran síðustu vikuna.
Í bréfinu vísa stjórnvöld í Teheran meðal annars til „fjölda fáránlegra tísta“ sem hafi hvatt Írani til að taka þátt í sundrandi aðgerðum. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur meðal annars tíst stuðningi sínum við mótmælendur og kallað írönsk stjórnvöld spillt.
Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC hefur tuttugu og einn látið lífið í mótmælum í nokkrum írönskum borgum á sex daga tímabili.
Mótmælin beindust upphaflega að dýrtíð og spillingu en fljótlega snerist reiði mótmælenda að valdastétt landsins og Ali Khamenei, æðstaklerki og leiðtoga Írans. Lítið hefur þó borið á mótmælum síðustu tvo dagana. BBC segir að svo virðist sem að þau séu að fjara út.
Vinsælir samfélagsmiðlar eins og Instagram og Telegram eru enn lokaðir í Íran. Þeim var lokað um leið og mótmælin brutust út.
Írönsk stjórnvöld saka Bandaríkjastjórn um að hafa brotið alþjóðlög með afskiptum sínum síðustu daga. Nikki Haley, sendifulltrúi Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar, kallaði ásakanir íranskra stjórnvalda um að þau væru að ala á óeirðum í Íran „algera vitleysu“ á þriðjudag.
