Manafort samþykkti að veita Robert Mueller, sérstaka rannsakanda dómsmálráðuneytisins, upplýsingar eftir að hann var sakfelldur fyrir fjársvik og samsæri í september til þess að reyna að milda refsingu sína. Manafort var kosningastjóri Trump þar til í ágúst árið 2016 þegar hann steig til hliðar í skugga ásakana um að hann hefði þegið milljónir dollara frá fyrrverandi forseta Úkraínu.
Saksóknarar Mueller létu dómstól vita á mánudag að Manafort hefði brotið gegn samkomulaginu með því að ljúga ítrekað um „ýmis málefni“. Þeir telja sig því ekki bundna af því að biðja dómarann í máli Manafort um að sýna honum mildi eins og samkomulagið kvað á um. Lögmenn Manafort segja hann aðeins hafa sagt sannleikann.
Nú greinir New York Times frá því að lögmaður Manafort hafi ítrekað veitt lögmönnum forsetans upplýsingar um samtöl skjólstæðings síns við saksóknara Mueller eftir að hann samdi við þá um samstarf.
Þannig hafi Kevin Downing, lögmaður Manafort, sagðt Giuliani að saksóknarnir hefðu eytt miklu púðri í að ganga á Manafort um hvort að Trump hefði vitað af fundi Manafort, sonar síns og tengdasonar með Rússum í Trump-turninum í júní árið 2016. Rússarnir höfðu lofað Trump yngri skaðlegum upplýsingum um Hillary Clinton, mótframbjóðanda föður hans. Trump yngri staðhæfir að faðir sinn hafi ekkert vitað af þeim fundi.
„Hann vill að Manafort bendli Trump við glæp,“ segir Giuliani um Mueller við New York Times. Hann heldur því fram að fyrirkomulagið sé eðlilegt þar sem það hjálpi lögmönnum Trump að móta vörn sína fyrir hann.

Nýttu sér upplýsingarnar í áróðursstríði gegn rannsókninni
Lögspekingar sem blaðið ræddi við telja að engin lög hafi verið brotin með samtali lögmannanna. Þeir velta hins vegar upp möguleikanum að með því freisti Manafort þess fá forsetann til að náða sig á sama tíma og hann reynir að fá saksóknarana til að milda refsingu sína.Málið hefur hins vegar skaðað samskipti lögmanna Manafort og saksóknaranna. Trump og bandamenn hans virðast hafa nýtt sér upplýsingarnar frá lögmönnum Manafort í áróðursstríði gegn Mueller-rannsókninni.
Þannig hefur forsetinn ítrekað tíst ásökunum um að saksóknararnir komi illa fram við og „rústi lífum“ fólks.
„Bíðið þar til það kemur fram hversu hræðilegir og grimmir þeir eru í meðferð á fólki, eyðileggja líf þess fyrir að neita að ljúga,“ tísti Trump í gær.
Farið ofan í saumana á samskiptum við Wikileaks
Enn jókst á vandræði Manafort þegar breska blaðið The Guardian fullyrti í gær að han hefði átt leynilega fundi með Julian Assange, stofnanda Wikileaks, meðal annars skömmu áður en vefurinn birti fjölda tölvupósta sem rússneskir hakkarar stálu frá Demókrataflokknum og kosningastjóra Clinton árið 2016.Manafort, Assange og Wikileaks hafa hafnað þeirri frétt algerlega. Kristinn Hrafnsson, fyrrverandi talsmaður Wikileaks, sagðist í gær undirbúa málshöfðun gegn The Guardian vegna umfjöllunarinnar.
Fleiri bandamenn Trump hafa verið bendlaðir við Wikileaks undanfarið. Saksóknarar Mueller hafa meðal annars kannað hvort að Roger Stone, yfirlýstur pólitískur klækjarefur og óformlegur ráðgjafi Trump í kosningabaráttunni og til margra ára á undan, hafi fengið upplýsingar um birtingu tölvupósta demókrata fyrir fram.

„Orðið er að vinur í sendiráði áformi tvær dembur í viðbót. Ein skömmu eftir að ég kem aftur. Annan í október. Áætlunin er að áhrifin verði mjög skaðleg,“ skrifaði Corsi í tölvupósti til Stone. Vísaði hann þar til Assange sem hefur hafst við í sendiráði Ekvadors í London til að koma sér undan yfirvöldum í Svíþjóð og síðar Bretlandi undanfarin ár.
Corsi heldur því fram nú að hann hafi aldrei hitt Assange eða rætt við hann. Sakar hann saksóknara Mueller um að þrýsta á sig um að viðurkenna að hann hafi logið um samskipti við Wikileaks. Hann hafi einfaldlega gleymt þeim og ýkt hversu mikið hann vissi.
„Ég er sannfærður um að minni mitt er rétt að ég hafi ekki haft heimildarmann sem kom mér í samband við Assange. Ég held í alvörunni ekki,“ segir Corsi við Washington Post.
Stone hafnar því að hafa átt í samskiptum við Assange eða Wikileaks. Giuliani, lögmaður Trump, segir forsetann ekki reka minni til þess að hafa nokkru sinni rætt við Stone eða Corsi um Wikileaks.
Segist ekkert hafa vitað af Wikileaks eða fundi með Rússum
Bandaríska fréttastöðin CNN segist hafa fengið upplýsingar um svör Trump og lögmanna hans við tveimur spurningum saksóknara Mueller. Þeir féllust á að leyfa Trump að svara spurningunum skriflega. Ekki er þó talið útilokað að þeir reyni að knýja forsetann til að gefa skýrslu munnlega áður en yfir lýkur.Trump hafi sagt Mueller að hann hafi ekki vitað af fundi Manafort, Trump yngri og Jareds Kushner með Rússum í Trump-turninum fyrir tveimur árum og að Stone hafi ekki sagt honum frá því að Wikileaks ætlaði að birta tölvupósta demókrata. Í svörunum hafi verið fyrirvari um að að þau væru eftir besta minni forsetans.