Þór bjargaði einu stigi í toppbaráttunni er liðið gerði 3-3 jafntefli við Fram í Laugardalnum en Þór er að berjast á toppnum í Inkasso-deild karla.
Sveinn Elías Jónsson kom Þór yfir á tólftu mínútu og nítján mínútum síðar var Ármann Pétur Ævarsson búinn að tvöfalda forystuna.
Guðmundur Magnússon klóraði í bakkann fyrir Fram fyrir hálfleik og Þórsarar leiddu 2-1 í hálfleik en fjörinu í Laugardalnum var ekki lokið.
Guðmundur var aftur á ferðinni á 72. mínútu er hann jafnaði metin og þremur mínútum síðar kom hann Fram í 3-2 með marki úr vítaspyrnu.
Þegar í uppbótartíma var komið fengu gestirnir vítaspyrnu. Alvaro Montejo steig á punktinn og skoraði. 3-3 í ótrúlegum leik.
Þeir eru í fjórða sætinu með 30 stig, þremur stigum frá toppliði ÍA.
Fram er í sjötta sætinu með 20 stig en úrslit og markaskorarar eru fengnir frá Fótbolti.net.
