Fótbolti

Hamrén svarar Óla Jóh: Ég tek alltaf lokaákvörðun og ber ábyrgð á henni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Orð Ólafs bárust til landsliðsþjálfaranna.
Orð Ólafs bárust til landsliðsþjálfaranna. vísir/bára
Erik Hamrén, landsliðsþjálfari í fótbolta, og Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, svöruðu Ólafi Jóhannessyni, þjálfara Íslandsmeistara Vals, fullum hálsi á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Ólafur sagði í viðtali við RÚV að hann vildi sjá Hamrén yngja upp í landsliðinu og þá var hann viss um að Svíinn hefði ekki valið fyrsta landsliðshópinn sjálfur.

Hamrén fékk bara 16 daga áður en að hann þurfti að velja sinn fyrsta hóp og er Ólafur á því að hann hafi fengið aðstoð við að velja hópinn því hann þekkti ekki leikmennina.

„Ég sá viðtalið við Óla og ég þekki Óla ágætlega. Hann segir yfirleitt hlutina í fyrirsögnum en hann er einnig góður maður og ég held að hann hafi ekki látið ætla koma svona út,“ sagði Freyr á blaðamannafundinum í dag.

„Hann veit að Erik Hamrén valdi liðið en að sjálfsögðu, þá eins og nú, er ég aðstoðarmaður hans og aðstoða hann með ákvarðanir.“

Hamrén er ekki orðinn reiprennandi í íslensku og raun langt frá því en hann skyldi spurninguna og vildi einnig svara. „Það hafa allir rétt á sinni skoðun, meira að segja fyrrverandi landsliðsþjálfarar,“ sagði Svíinn.

„Mín hugmyndafræði um fótbolta er að maður stendur ekki einn í þessu. Maður þarf að vera með gott fólk í kringum sig og ég vinn náið með Frey og öðrum í hópnum.“

„En, ég tek alltaf lokaákvörðun og ber ábyrgð á henni,“ sagði Erik Hamrén ákveðinn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×