Erlent

Fyrsti kvenkyns flugmaður Afganistan fær hæli í Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Niloofar Rahmani, fyrsti kvenkyns flugmaður Afganistan.
Niloofar Rahmani, fyrsti kvenkyns flugmaður Afganistan. Vísir/AFP
Höfuðsmaðurinn Niloofar Rahmani hefur fengið hæli í Bandaríkjunum. Hún flaug fyrir afganska herinn og var fyrsta konan til að gera það. Hún segist ekki geta búið lengur í Afganistan öryggis síns vegna og hefur haldið til í Bandaríkjunum þar sem hún lauk þjálfun sinni. Yfirvöld Afganistan reiddust verulega þegar hún sótti um hæli í Bandaríkjunum og sögðu hana ljúga um að vera í hættu, þá ekki bara frá Talíbönum heldur einnig félögum sínum í hernum og jafnvel frá nágrönnum sínum og ættingjum.

Fjölskylda Rahmani hefur ítrekað þurft að flytja í Afganistan vegna hótana. Hún sótti um hæli árið 2016.

Varnarmálaráðuneyti Afganistan bað yfirvöld Bandaríkjanna á sínum tíma að hafna beiðni hennar og senda hana aftur til Afganistan.

„Þegar yfirmaður í hernum kvartar vegna óöryggis og er hræddur við ógnanir, hvað getur venjulegt fólk þá gert?“ sagði Mohammad Radmanish, hershöfðingi og talsmaður ráðuneytisins við Reuters í desember 2016. Á svipuðum tíma sagði Radmanish við New York Times að hún hefði logið um að vera í hættu til að fá hæli í bandaríkjunum. Ofurstinn Ayan Khan sagði sömuleiðis að það væri ómögulegt að hún hefði verið áreitt af öðrum hermönnum.

„Hvernig geta þeir áreitt kvenkyns samstarfsmann sem þjónar með þeim?“ spurði Khan.

Árið 2015 fékk Rahmani hugrekkisverðlaun Utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna. Á verðlaunaathöfninni kom fram að hún var einungis átján ára gömul þegar hún sótti um inngöngu í herinn. Þar kom einnig fram að hún hefði ítrekað fengið morðhótanir en væri þrátt fyrir það að kvetja aðrar ungar konur til að fylgja fordæmi sínu.

Rahmani fær verðlaun sín eftir um tíu mínútur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×