Upplýsingafulltrúi Facebook sagði í samtali við TechCrunch í gær að galli ylli vandanum. „Við komumst að því að galli kæmi í veg fyrir að myndböndum yrði eytt. Við erum nú að eyða myndböndunum og biðjumst afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið.“
Auðvelt er að komast að því hvað Facebook veit um notanda. Hægt er að fara í stillingar og þar smella á „Hlaða niður afriti af Facebook-gögnum þínum“. Eftir nokkrar mínútur fær notandi tilkynningu og er þá hægt að hlaða skjalasafninu niður.
Vilja ekki græða á persónuupplýsingum
Meðhöndlun Facebook á persónuupplýsingum hefur verið mikið í sviðsljósinu undanfarið. Allt frá því að upp komst um umfang starfsemi greiningarfyrirtækisins Cambridge Analytica. Nýtti fyrirtækið persónuupplýsingar Facebook-notenda til þess að hafa óeðlileg áhrif á lýðræðisferlið í fjölda ríkja.Umfjöllunin vakti hörð viðbrögð Tims Cook, forstjóra Apple. Í viðtali við MSNBC, sem brot var sýnt úr í síðustu viku, sagði forstjórinn að Apple hefði vel getað halað inn milljarða á því að græða á persónuupplýsingum. „Við völdum að gera það ekki. Við ætlum ekki að stunda viðskipti með persónulegar upplýsingar. Friðhelgi einkalífsins telst að okkar mati til mannréttinda.“
Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, svaraði þessu á annan í páskum. Sagði hann það ósatt að Facebook væri sama um notendur sína. „Það er mikilvægt að við þjáumst ekki af Stokkhólmsheilkenninu og leyfum fyrirtækjum, sem gera sitt besta til þess að rukka sem mest, ekki að sannfæra ykkur um að þessum fyrirtækjum sé meira annt um ykkur. Það er fáránlegt.“