Fótbolti

Zlatan-sýningin heldur áfram í Los Angeles

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic.
Zlatan Ibrahimovic. Vísir/Getty
Zlatan Ibrahimovic skoraði sína fyrstu þrennu í bandarísku MLS-deildinni í nótt þegar hann hjálpaði liði sínu Los Angeles Galaxy að vinna 4-3 sigur á Orlando City í nótt.

Zlatan gerði gott betur en að skora þrjú mörk sjálfur því hann lagði einnig upp fjórða markið sem var samt það fyrsta sem LA Galaxy liðið skoraði í leiknum.

Hinn 36 ára gamli Zlatan Ibrahimovic hefur nú skorað 15 mörk í 17 leikjum með Los Angeles Galaxy þar af tólf þeirra í undanförnum níu leikjum.

Zlatan fékk rauða spjaldið í leik 21. maí en hefur verið frábær eftir að hann kom til baka úr leikbanni.

Það er því ekkert óeðlilegt að Los Angeles Galaxy tali um „Sýningu Zlatan Ibrahimovic“ á samfélagsmiðlum sínum eins og sjá má hér fyrir neðan.





LA Galaxy liðið hefur ekki tapað í síðustu níu leikjum sínum og þar hefur frammistaða Svíans haft mikið að segja. Hann hefur komið að marki í síðustu sjö leikjum liðsins.

Zlatan skoraði fyrri tvö mörkin sín með skalla en það síðasta skoraði hann með föstu skoti eftir að boltinn datt fyrir hann í teignum. Það má sjá þessi þrjú mörk hans hér fyrir neðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×