Þingflokkur Pírata ákvað að sniðganga hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum í dag. Þingmennirnir sögðu það hafa verið óforsvaranlega ákvörðun af forseta Alþingis að bjóða Piu að flytja ávarp fyrir hönd dönsku þjóðarinnar í tilefni af hundrað ára afmæli fullveldis Íslands.
Pia stofnaði danska þjóðarflokkinn árið 1995 auk þess sem hún var formaður flokksins frá stofnun til ársins 2012. Pia er umdeildur stjórnmálamaður og ekki síst vegna framgöngu sinnar í innflytjendamálum og baráttu gegn fjölmenningu og íslam.
Fréttastofa ræddi við Steingrím á Þingvöllum fyrr í dag þar sem hann var spurður út í afstöðu Pírata.
„Þetta voru nú einu sinni samningar þar sem danska þingið og Alþingi léku lykilhlutverk. Þannig að þetta var ekki einstaklingurinn Pia Kjærsgaard með sínar umdeildu skoðanir sem var hér gestur okkar, heldur forseti danska þjóðþingsins,“ sagði Steingrímur.
Steingrímur sagði það aðallega leiðinlegt fyrir Pírata sjálfa að missa af þessari stund. Hann sagðist sjálfur vera umdeildur og væri til að mynda á móti Atlantshafsbandalaginu NATO en væri ekki umdeildur sem forseti Alþingis vegna þeirra skoðana.
Þingmenn Pírata sögðu í dag að þeir ætluðu að taka þátt í hátíðarhöldunum en sögðust hafa flotið sofandi að feigðarósi þar sem persóna heiðursgestsins, Piu Kjærsgaard, varð þeim ekki ljós fyrr en við fréttaflutning í gær.
Guðjón S. Brjánsson, fyrsti varaforseti Alþingis, sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrr í dag að aðkoma Kjærsgaard hefði verið kynnt og rædd í forsætisnefnd, þar sem Píratar eiga fulltrúa, og samþykkt án athugasemda.