Hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins vegna almannaþjónustu koma fram í 3. gr. laganna um Ríkisútvarpið. Í 4. gr. laganna segir: „Ríkisútvarpið skal stofna og reka dótturfélög, sem að fullu leyti eru í eigu þess, fyrir aðra starfsemi en þá sem kveðið er á um í 3. gr.“
Í greinargerð með frumvarpi til laganna er þetta ákvæði útskýrt þannig að starfsemi í samkeppnisrekstri þurfi að vera fjárhagslega aðgreind frá móðurfélaginu og sala auglýsinga- og kostunar í dagskrá móðurfélagsins (RÚV) þurfi að vera í dótturfélagi.
Gildistöku þessa ákvæðis var frestað í fimm ár þegar lögin um RÚV voru samþykkt á Alþingi árið 2013 eða til 1. janúar 2018. Frá byrjun þessa árs hefur hvílt lagaskylda á RÚV að stofna dótturfélag utan um þessa starfsemi.
Ríkisútvarpið hefur hins vegar ekki stofnað dótturfélag eða dótturfélög og látið samkeppnisrekstur sinn, þann hluta rekstrarins sem er í beinni samkeppni við einkarekna fjölmiðla, standa inni í sama félagi og rekstur almannaþjónustunnar.
Á stjórnarfundi RÚV ohf. í dag stóð meðal annars til að ræða framgöngu RÚV á auglýsingamarkaði. Fréttastofan náði tali af Kára Jónassyni formanni stjórnar RÚV fyrir fundinn og sagðist hann vona að RÚV færi að lögum og reglum. Kvartanir vegna auglýsingasölu RÚV væru til meðferðar hjá bæði Samkeppniseftirlitinu og Fjölmiðlanefnd og stjórn félagsins biði niðurstöðu þessara stofnana áður en hún myndi eitthvað aðhafast.
Framganga RÚV á auglýsingamarkaði harðlega gagnrýnd
Framganga RÚV á auglýsingamarkaði hefur sætt harðri gagnrýni á síðustu vikum en það var sjónvarpsstöðin Hringbraut sem kvartaði til bæði Samkeppniseftirlitsins og Fjölmiðlanefndar.
Stjórnendur Hringbrautar telja að RÚV hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á markaði með auglýsingar með því að samtvinna sölu á auglýsingum fyrir heimsmeistarakeppnina í fótbolta við sölu á auglýsingaplássi fyrir óskylda dagskrárliði. Var auglýsendum meðal annars boðið að kaupa 10 milljóna króna auglýsingapakka sem fól í sér auglýsingar allt árið.