Franskir mótmælendur, kenndir við gul vesti, söfnuðust í dag saman á Champs-Elysées, helstu breiðgötu Parísar, fimmtu helgina í röð þrátt fyrir tilmæli stjórnvalda til þeirra um að halda sig heima.
Mikill viðbúnaður er á götum Parísar vegna mótmælanna. Þúsundir lögreglumanna hafa verið ræstar út og tugir mótmælenda hafa nú þegar verið handteknir. Þá hefur ýmsum verslunum og söfnum í frönsku höfuðborginni verið lokað vegna óeirðanna. Eiffel-turninn og Louvre-safnið, þekktustu ferðamannastaðir Parísar, verða þó að óbreyttu aðgengileg almenningi í dag.
Mótmæli gulvestunganna hafa vakið heimsathygli, en upphaflega beindust mótmæli þeirra að hækkuðum álögum á eldsneyti en fljótlega breyttist tónn mótmælanna og þróaðist út í almenna óánægju með efnahagsstefnu ríkisstjórnar Macrons og bættust þá fleiri í hóp þeirra.
Nú virðist hins vegar vera að draga úr fjölda mótmælenda en samkvæmt frétt BBC hafa nokkrir tugir manna verið handteknir í dag samanborið við þau 300 sem höfðu verið tekin föst vegna mótmælanna á sama tíma síðustu helgi.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur nú þegar brugðist við óánægju mótmælenda með því að draga til baka áform sín um að hækka eldsneytisskatt. Þá hefur hann lofað því að hækka lágmarkslaun um hundrað evrur, eða um 14 þúsund íslenskar krónur, auk þess sem hann hefur lofað skattaafslætti fyrir ellilífeyrisþega. Loforð forsetans virðast hafa sefað stóran hluta mótmælenda en þrátt fyrir það eru enn einhverjir sem telja stjórnvöld ekki hafa mætt kröfum mótmælenda á fullnægjandi hátt.

