Íslenski boltinn

Stórbrotið mark er ÍA rúllaði yfir Þór | Sjáðu markið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mark Arnars í kvöld var rosalegt.
Mark Arnars í kvöld var rosalegt. vísir/vilhelm
Skagamenn lentu ekki í miklum vandræðum með Þór í toppslag í Inkasso-deild karla. Leikið var á Skaganum í blíðskapaveðri í kvöld og unnu heimamenn 5-0 sigur.

Arnór Snær Guðmundsson kom Skagamönnum yfir á 38. mínútu. Fyrirgjöf Þórðar Þorsteins Þórðarsonar rataði beint á kollinn á Arnóri sem skilaði boltanum í netið.

Staðan 1-0 í hálfleik og á þriðju mínútu síðari hálfleiks var miðvörðurinn aftur á ferðinni. Hann skoraði þá eftir fyrirgjöf Hafnfirðings, Harðars Inga Gunnarssonar.

Þriðja mark Skagamanna var af dýrari gerðinni og rúmlega það. Það skoraði Arnar Már Guðjónsson. Hann var snöggur að taka aukaspyrnu, rétt inn á sínum vallarhelmingi, og skoraði yfir Aron Birki Stefánsson í marki Þór. Stórbrotið.

Heimamenn voru ekki hættir því fjórða markið kom tíu mínútum fyrir leikslok er Einar Logi Einarsson var aleinn í teignum eftir hornspyrnu. Hann stangaði boltann í netið og heimamenn komnir í 4-0.

Veislunni var ekki lokið. Aron Kristófer Lárusson, varamaðurinn, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark undir lok leiksins og lokatölur 5-0 stórsigur Skagamanna í þessum toppslag.

Þetta var fyrsti sigur ÍA síðan fimmta júlí en liðið er nú komið í annað sætið með 27 stig, jafn mörg stig og Ólafsvíkingar sem eru í þriðja sæti, en tveimur stigum á eftir toppliði HK.

Þórsarar eru í fjórða sætinu með 26 stig og eru því enn með í þessari spennandi toppbaráttu sem er framundan í Inkasso-deildinni er tvö lið berjast um sæti í Pepsi-deildinni að ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×