Erlent

Ætla að freista þess að fá fóstureyðingarlögunum hnekkt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Suzanna de Baca, framkvæmdastjóri Planned Parenthood of the Heartlands, greinir frá lögsókninni í borginni Des Moines í Iowa í dag.
Suzanna de Baca, framkvæmdastjóri Planned Parenthood of the Heartlands, greinir frá lögsókninni í borginni Des Moines í Iowa í dag. Vísir/AP
Samtök um mannréttindi og rétt kvenna til fóstureyðinga hafa höfðað mál gegn ríkisstjóra Iowa en með lögsókninni freista samtökin þess að fá nýrri og hertri fóstureyðingarlöggjöf Repúblikana í ríkinu hnekkt. Með lögunum verða fóstureyðingar eftir sex vikna meðgöngu bannaðar í Iowa og löggjöfin því sú strangasta sinnar tegundar í Bandaríkjunum.

Mannréttindasamtök sem berjast fyrir rétti kvenna til fóstureyðinga og aðgengi þeirra að heilbrigðisþjónustu, þar á meðal samtökin The American Civil Liberties Union of Iowa og Planned Parenthood Federation of America, eiga aðild að kærunni en tilkynnt var um hana í dag.

Sjá einnig: Iowa stefnir að ströngustu fóstureyðingarlögum Bandaríkjanna

Í kærunni er því haldið fram að lögin brjóti í bága við stjórnarskrá Iowa-ríkis á grundvelli þess að þau banni nær allar fóstureyðingar og stofni þannig heilsu kvenna í hættu. Stefnendur ætla því að freista þess að fá lögunum hnekkt en málarekstur gæti tekið nokkur ár. Þa hefur lögfræðistofa í ríkinu nú þegar boðist til þess að flytja málið fyrir hönd samtakanna án endurgreiðslu.

Frumvarpið, sem hefur verið umdeilt, var samþykkt í þinginu í Iowa í byrjun þessa mánaðar og degi síðar skrifaði ríkisstjórinn, repúblikaninn Kim Reynolds, undir það.

Ef lögin taka gildi þann 1. júlí næstkomandi eins og áætlað er verður konum í Iowa framvegis bannað að fara í fóstureyðingu eftir að hjartsláttur finnst í fóstri. Það gerist iðulega eftir um sex vikna meðgöngu.

Þannig hafa andstæðingar laganna haldið því fram að með þeim sé í raun verið að gera konum nánast ómögulegt að rjúfa þungun þar eð margar þeirra vita ekki af henni fyrr en þær eru komnar lengra en sex vikur á leið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×