Snjallræðisteymin kynna verkefnin sem þau hafa unnið að undanfarnar sjö vikur í samstarfi við öflugan hóp mentora og helstu sérfræðinga landsins á sviði samfélagslegrar nýsköpunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, flytur erindi. Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi, veitir teymunum viðurkenningar. Kynnir er Magnús Þór Torfason, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Þann 10. október hóf fyrsti íslenski hraðallinn fyrir samfélagslega nýsköpun, Snjallræði, göngu sína. Hraðlinum er ætlað að stuðla að fjölbreyttari nýsköpun hér á landi og skapa vettvang fyrir aukið samfélagslegt frumkvöðlastarf.
Alls bárust 40 umsóknir í Snjallræði þetta árið og þau verkefni sem báru sigur úr bítum eru afar fjölbreytt, virkilega metnaðarfull og leita lausna við ólíkum samfélagslegum áskorunum.
Sjö framúrskarandi verkefni á sviði samfélagslegrar frumkvöðlastarfsemi voru valin til þátttöku og hafa undanfarnar sjö vikur unnið að þróun þeirra á frumkvöðlasetri Skapandi greina við Hlemm. Á sjö vikna tímabili, í október og nóvember, nutu þátttakendurnir stuðnings við að þróa hugmyndina áfram og koma henni í framkvæmd, ásamt þjálfun frá fremstu sérfræðingum Íslands á sviði samfélagslegrar nýsköpunar.
Að hraðlinum standa Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.