Marokkósk kona búsett í Sameinuðu arabísku furstadæmunum er sökuð um að hafa myrt kærasta sinn, bútað hann niður og eldað máltíð úr kjötinu sem hún bauð síðar verkamönnum í grennd við heimili sitt.
Í frétt BBC um málið er haft eftir saksóknurum að konan, sem er á fertugsaldri, hafi myrt kærastann fyrir þremur mánuðum. Hún hafi þó ekki orðið uppvís að morðinu fyrr en nú á dögunum, eftir að tönn úr manninum fannst í blandara í hennar eigu.
Í frétt ríkisrekna dagblaðsins The National segir að konan hafi játað sök í málinu og borið fyrir sig „sturlun“.
Þá hefur BBC einnig upp úr dagblaðinu að konan hafi verið í sambandi með manninum í sjö ár. Þegar hann tjáði henni að hann hygðist giftast annarri konu hafi hún ákveðið að myrða hann.
Ekki hefur komið fram hvernig maðurinn var myrtur. Konan er þó sögð hafa búið til kjötrétt úr líkamsleifum mannsins og framreitt ásamt hrísgrjónum. Konan lagði sér réttinn ekki til munns sjálf heldur bauð hún pakistönskum verkamönnum, sem voru við störf í grennd við heimili hennar, upp á hann.

