Erlent

Nike hefur „miklar áhyggjur“ vegna ásakana á hendur Ronaldo

Atli Ísleifsson skrifar
Cristiano Ronaldo hefur neitað ásökununum.
Cristiano Ronaldo hefur neitað ásökununum. Vísir/Getty
Bandaríski íþróttavörurisinn Nike hefur „miklar áhyggjur“ af þeim „truflandi ásökunum“ sem hafa verið bornar á portúgalska knattspyrnumanninn Cristiano Ronaldo. Hann hefur verið sakaður um að hafa nauðgað Kathryn Mayorga í Las Vegas sumarið 2009.

Þetta kemur fram í svari Nike við fyrirspurn AP fréttastofunnar. Nike kveðst fylgjast grannt með framvindu mála.

Mayorga hefur höfðað einkamál á hendur Ronaldo og farið fram á skaðabætur. Segir hún að samkomulag sem þau gerðu með sér um að hún myndi þiggja fé fyrir að ræða ekki um atburði kvöldsins sé ógilt. Lögregla í Las Vegas staðfesti á þriðjudag að rannsókn á málinu hafi verið tekin upp að nýju.

Sjá einnig:Með skjal í höndunum sem gæti komið Ronaldo illa: „Hún sagði nei og hættu margoft“

Hinn 33 ára Ronaldo, sem hefur verið á mála hjá Nike frá árinu 2003 og verið áberandi í auglýsingaherferðum fyrirtækisins, hefur hafnað ásökunum Mayorga. Samningur Ronaldo og Nike ku vera í kringum eins milljarðs Bandaríkjadala virði.

Félagslið hans, Juventus frá Torínó á Ítalíu, lýsti fyrr í dag yfir stuðningi við leikmanninn. Segir félagið að Ronaldo hafi á síðustu mánuðum sýnt fram á mikla fagmennsku og að hann sé mikils metinn hjá félaginu.

Ennfremur segir að meintir atburðir, sem eiga að hafa gerst fyrir tíu árum síðan, breyti ekki þeirri skoðun. Allir þeir sem hafi komist í kynni við „þennan mikla meistara“ séu á sama máli. Ronaldo gekk til liðs við Juventus frá Real Madríd í sumar.

Fyrr í dag var greint frá því að Ronaldo hafi ekki verið valinn í landsliðshóp Portúgals vegna komandi leikja gegn Póllandi og Skotlandi.


Tengdar fréttir

Mayorga stígur fram: Ég öskraði á hann

Í fyrra var Cristiano Ronaldo sakaður um nauðgun á Kathryn Mayorga í Las Vegas árið 2009 en Kathryn hefur nú komið fram til þess að lýsa atburðinum frekar.

Lögreglan í Las Vegas hefur rannsókn að nýju

Lögreglan í borginni Las Vegas í Nevadaríki Bandaríkjanna hefur að nýju hafið rannsókn á kynferðisbrotamáli sem átti sér stað í borginni fyrir níu árum síðan. Dagsetningin gefur til kynna að um sé að ræða mál Cristiano Ronaldo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×