Erlent

Stórsigur fyrir fíla

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fílar geta nú andað léttar.
Fílar geta nú andað léttar. Vísir/Getty
Þingmenn í Hong Kong samþykktu í gær að banna verslun með fílabein í landinu - sem lengi hefur verið talið stærsta markaðssvæði fílabeins í heiminum. Baráttufólk fagnar ákvörðuninni og segir hana vera stórsigur og „vonarglætu“ fyrir fíla víðsvegar um heiminn.

Nágrannaríkið Kína samþykkti sambærileg lög á síðasta ári en fílabein hefur verið eftirsótt í austurlöndum fjær svo öldum skiptir. Bannið í Hong Kong tekur gildi í skrefum og verður sala á fílabeini með öllu ólögleg árið 2021.

Áður en til atkvæða á þinginu komu hafði hópur mótmælenda safnast saman fyrir utan þinghúsið. Kyrjuðu þeir slagorð og héldu á skiltum þar sem meðal annars stóð: „Þurfiði virkilega prjóna úr fílabeini?“

Verslun með dýratennur, ekki síst fílabein, á sér langa sögu í Hong Kong og hafa áhugasamir kaupendur flykkst til sjálfstjórnarsvæðisins í á annað hundrað ár. Flestir kaupendurnir, eða rúmlega 90 prósent, eru frá Kína ef marka má frétt breska ríkisútvarpsins.

Alþjóðlegt verslunarbann með fílabein tók gildi árið 1989 og er talið að um 670 tonna birgðir af fílabeini hafi þá verið í Hong Kong. Á pappírunum má einungis versla með þessar birgðir í landinu en dýraverndunarsinnar hafa bent á að fjölmargt misjafnt þrífist í skugga þessarar heimildar.

Síðastliðið sumar lagði lögreglan í Hong Kong hald á rúmlega 7,2 tonn af fílabeini. Aldrei áður hefur annað eins magn af fílabeini verið haldlagt í einni rassíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×