Erlent

Segir persónu Erdogans hafa runnið inn í ríkið

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
„Við höfum nú gegnið í gegn um kosningar sem munu hafa djúp áhrif á lýðræðið og líf okkar allra til framtíðar,“ sagði Muharrem Ince, frambjóðandi Lýðveldisflokksins, á blaðamannafundi í dag þar sem hann viðurkenndi ósigur í tyrknesku forsetakosningunum í gær. „Þessar kosningar hafa verið afar ósanngjarnar.“ Ince var sá frambjóðandi sem kom á eftir Erdogan í kosningunum með um 31 prósent atkvæða.

Kosningaeftirlitsnefnd á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu - ÖSE tekur undir gagnrýni Ince og vísar til þess að ríkisfjölmiðlar og einkafjölmiðlar hafi ekki veitt öllum frambjóðendum jöfn tækifæri. „Kjósendur höfðu raunverulega valkosti í þessum kosningum,“ sagði Ignacio Sanchez Amor, formaður eftirlitsnefndar ÖSE í Tyrklandi, á blaðamannafundi í dag. „Þrátt fyrir það naut sitjandi forseti og flokkur hans töluverðs forskots vegna umfjöllunar ríkis- og einkafjölmiðla. Þá hefur lagaumgjörð og ríkjandi neyðarlög skert frelsi til samkomu og tjáningarfrelsi fólks og fjölmiðla.“

Eftir nýlegar stjórnarskrárbreytingar mun Erdogan taka við töluvert valdameira embætti en áður. Meðal annars getur hann nú skipað dómara, hlutast til í löggjafarferlinu og lýst yfir neyðarástandi í landinu. 

Ince og aðrir frambjóðendur höfðu heitið því að draga til baka stjórnarskrárbreytingarnar næðu þau kjöri. Hann segir Erdogan beina ógn við tyrkneskt lýðræði. „stjórnvöldin sem taka við í dag eru meiriháttar hætta fyrir lýðræði í Tyrklandi. Einn flokkur, eða ein manneskja rennur saman við ríkið og framkvæmdar- löggjafar- og dómsvaldið eru nú komin í tilvistarkreppu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×