Djurgården náði forystunni eftir að rúmt korter hafði verið spilað af leiknum með marki frá Jacob Une Larsson. Rétt fyrir lok hálfleiks fékk Arnór Ingvi að líta gula spjaldið eftir að hafa lent saman við Jesper Karlström sem hafði brotið á Arnóri.
Snemma í síðari hálfleik bætti Kerim Mrabti við öðru marki Djurgården. Það var síðan Jonathan Ring sem gulltryggði sigurinn þegar hann kom liðinu í 3-0 á 81. mínútu.
Stöðva þurfti leikinn á 87. mínútu vegna óláta stuðningsmanna Malmö. Blysum var hent inn á gervigrasið og þurftu leikmenn að yfirgefa völlinn á meðan öryggisverðir náðu stjórn á stuðningsmönnunum. Það hafðist og voru síðustu mínútur leiksins spilaðar nokkrum mínútum síðar.
Eftir að flautað var til leiksloka hófust lætin aftur. Blysum var hent í átt að leikmönnum og áhorfendur þyrptust inn á völlinn. Bikarlyfting Djurgården tefst því eitthvað en þetta var fysti titill liðsins í 13 ár.
Djurgården is the Swedish cup champions! pic.twitter.com/QRdlkPMJXp
— (@SwedeStats) May 10, 2018