Hlébarði varð þriggja á dreng að bana í indverska ríkinu Jammu og Kasmír í gærkvöldi. Indverskir fjölmiðlar greina frá því að hlébarðinn hafi komist inn í eldhús fjölskyldu drengsins og haft hinn þriggja ára Wasim Akram með sér á brott út í skóg.
Þetta ku vera þriðja dauðsfallið á síðustu tveimur mánuðum þar sem talið er að sami hlébarði hafi verið að verki. Áður hafði meðal annars átta ára drengur á svipuðum slóðum verið drepinn af hlébarða.
Yfirvöld vinna nú að því að hafa uppi á dýrinu og fella það. Hefur þeim orðum verið beint til almennings að gæta varúðar.
Áætlað er að um milli 12 og 14 þúsund hlébarða sé að finna á Indlandi. Eftir því sem meira land er lagt undir íbúabyggð á Indlandi, á kostnað skóga, hefur fundum manna og villtra dýra fjölgað.
Talið er að nokkur hundruð manna láti lífið af völdum hlébarða á Indlandi á ári hverju. Í síðustu viku var munkur drepinn af hlébarða þar sem hann íhugaði í skógi í ríkinu Maharashtra.
Hlébarði varð þriggja ára barni að bana
Atli Ísleifsson skrifar
