Mikið var um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna í höfuðborginni í nótt. Nokkrir bílstjóranna sem lögreglan stöðvaði voru auk þess ekki með ökuréttindi, einn þeirra hafði aldrei öðlast þau. Mörg útköll lögreglu voru vegna ölvaðra einstaklinga.
Á áttunda tímanum í gærkvöldi var maður í annarlegu ástandi handtekinn við Frakkastíg. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er hann grunaður um brot á vopnalögum og vörslu fíkniefna. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglunnar vegna rannsókn málsins.
Um miðnætti var maður í annarlegu ástandi handtekinn við Álfheima þar sem hann var að stofna til slagsmála. Maðurinn var vistaður í fangageymslu sökum ástands.
Á fimmta tímanum í nótt var maður handtekinn í Austurstræti. Hann hafði ekki farið að fyrirmælum lögreglu og er einnig grunaður um eignaspjöll. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu skemmdi maðurinn lögreglubifreið. Hann var vistaður í fangaklefa í nótt vegna rannsókn málsins.
Klukkan 17:21 í gær var tilkynnt um umferðaróhapp við Þönglabakka. Ökumaður á léttu bifhjóli ók inn í hlið bifreiðar og slasaðist við það á fæti. Ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabíl á Slysadeildina til aðhlynningar.
Skemmdi lögreglubifreið og var vistaður í fangaklefa
Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
