Verða bein ekkert að mold á svona löngum tíma? Prestarnir segja jú alltaf: Að jörðu skaltu aftur verða?…?
„Ekki hér, jarðvegurinn er sandur sem hleypir engu súrefni að, svo brjósk varðveitist, hvað þá bein.“
Sandvík er drjúgt steinsnar austan við þorpið á Drangsnesi. Sex eru við gröft þar þessa stundina, að sögn Bergsveins, bæði lærðir og leikir. En hefur hópurinn komið niður á bæ? „Við erum aðallega í öskuhaugnum enn þá og vinnum okkur þaðan. Fólk hefur varla hent rusli langt á þessum tíma. Það eru samt tóftir hér sem enginn veit hversu gamlar eru og enginn veit skil á.“

Bergsveinn verður að líkindum fundarstjóri á stóru málþingi um fornleifar Stranda sem haldið verður í Hveravík á Drangsnesi á laugardaginn. Þar verður um fleira fjallað en uppgröftinn í Sandvík. „Þessi fornleifafundur verður settur í samhengi við svæðið við Norður-Atlantshafið,“ upplýsir Bergsveinn og kveðst ætla að segja nokkur orð um ætlað landnám Gríms Ingjaldssonar í Grímsey á Steingrímsfirði. „Þó er varla mögulegt að þar hafi verið landnámsmaður því þar þrýtur vatn,“ segir hann og bætir við. „Heimildir eru illa varðveittar af þessu svæði, þeir sem skrifuðu Landnámu fóru ekkert hér um og vissu fátt nema það að Geirmundur Heljarskinn var hér inni í botni Steingrímsfjarðar með eitt bú, að Geirmundarstöðum.
Bergsveinn býst við mörgum á svæðið um helgina, bæði í söguröltið í Sandvík með fornleifafræðingunum milli 18 og 20 á föstudag, og á málþingið sem stendur frá 11 til 16. 30 á laugardag.