„Ég sæki innblástur í menningu og popplist sem ég hef smitast af frá því ég man eftir, eins og kvikmyndir og tónlist, fræga einstaklinga og viðburði. Þetta er blanda af öllu þessu. Það má segja að þetta sé skipulagt kaos.“
Verkin á sýningunni eru brædd í álplötur í New York með sérstakri tækni. „Ég skapa verkin á vinnustofu minni á Eskifirði og sendi þau stafrænt til New York. Þar eru platan og blekið hitað þannig að blekið umbreytist í gas og smýgur inn í yfirborð álsins. Síðan er verkið húðað með glærri filmu sem verndar og gefur fallega áferð. Ég held að ég hafi verið með þeim fyrstu á landinu til að gera þetta í listinni,“ segir Oddur.

Hringlaga verk
Öll verkin á sýningunni í Galleríi Fold eru hringlaga. „Mér finnst alltaf gaman að gera eitthvað nýtt. Ef ég fæ þá hugmynd að gera eitthvað sem fáir hafa gert þá vil ég hrinda henni í framkvæmd. Ég fékk þá flugu í hausinn að gera hringlaga verk og talaði við mína aðila í New York og það var ekkert mál að gera þau þannig. Það er allt öðru vísi að skapa inni í hringlaga formi heldur en því ferhyrnda og gefur verkunum nýja vídd. Þannig hef ég fundið mér nýjan vettvang til að leika mér á. Þetta skapar mér líka ákveðna sérstöðu, það eru ekki margir að gera hringlaga verk um þessar mundir.“Áður en Oddur hóf listferil sinn stundaði hann nám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri, með áherslu á markaðsfræði og stjórnun. „Viðskiptafræðin hefur nýst vel sem grunnur í listinni varðandi markaðssetningu og ýmislegt sem fylgir því að vera listamaður,“ segir hann.
Verk á Michelin-stað
Oddur segist hafa fengið gríðarlega góðar viðtökur frá því hann byrjaði að sinna listinni árið 2014. „Ég hef verið að fá mjög skemmtileg verkefni. Ég hafði stundað list mína í ár þegar ég tók að mér hönnunarverkefni fyrir Íslenska dansflokkinn og í vor hannaði ég fyrir WOW Air umbúðir fyrir bjór.“Hann hefur selt verk til Bandaríkjanna, Bretlands og Noregs og haldið tvær sýningar í Berlín. Verkin héngu uppi á Michelin-veitingastað í borginni í nokkra mánuði milli sýninga. „Þetta er mjög virðulegur veitingastaður með flottum kristalsljósakrónum. Þar héngu verk mín sem eru nútímaleg í björtum litum og með teiknimyndasögum. Þarna sköpuðust miklar og sterkar andstæður,“ segir Oddur.
Sýning hans í Galleríi Fold stendur til 26. ágúst.