Erlent

Fangelsisdómur við því að segja útrýmingarbúðir hafa verið pólskar

Samúel Karl Ólason skrifar
Helfarinnar var minnst á laugardaginn. 73 ár eru liðin frá því henni lauk.
Helfarinnar var minnst á laugardaginn. 73 ár eru liðin frá því henni lauk. Vísir/Getty
Neðri deild pólska þingsins samþykkti á föstudaginn nýtt frumvarp varðandi Helförina og útrýmingarbúðir Nasista í Póllandi. Verði frumvarpið að lögum gæti það varðað allt að þriggja ára fangelsisvist að segja umræddar útrýmingarbúðir vera pólskar. Lögin myndu eiga jafnt yfir heima- og ferðamenn.

Fyrst þarf þó öldungadeild þingsins að samþykkja frumvarpið og Andrzej Duda, forseti, að skrifa undir það.

Duda hefur þó lýst því yfir að hann muni skoða frumvarpið vandlega, verði það samþykkt á öldungadeildinni, áður en hann skrifi undir það.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni segir einnig í frumvarpinu að hver sá sem varpar ábyrgð vegna glæpa Þriðja ríkis Þýskalands á pólsku þjóðina eða ríkið geti verið sektaður eða dæmdur í fangelsi. Einnig væri hægt að sekta eða fangelsa aðila sem saka Pólverja um aðra glæpi gegn mannkyninu, gegn friði eða stríðsglæpi.



Anna Azari, sendiherra Ísrael í Póllandi, segir Ísraela telja að ef frumvarpið verði að lögum væri hægt að lögsækja gyðinga sem lifðu Helförina af fyrir að bera vitni um reynslu sína, ef einhverjir Pólverjar hafi komið þar við sögu.

Azari segir ísraelska ríkið ekki sátt við umrætt frumvarp og að Ísraelar átti sig fullvel á því hverjir byggðu útrýmingarbúðirnar. Það hefðu ekki verið Pólverjar.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hefur sakað Pólverja um að reyna að breyta sögunni með frumvarpinu. Hann sagði Ísrael ekki hafa þolinmæði fyrir þeim sem vilji endurskrifa söguna eða neita því að Helförin hafi átt sér stað.

Ráðuneyti Netanyahu sendi í dag frá sér tilkynningu þar sem sagt var frá því að hann hefði rætt við Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, í dag og að þeir hefðu sammælst um að komast að samkomulagi varðandi frumvarpið.

Um sex milljónir Pólverja dóu í hersetu Þýskalands í seinni heimsstyrjöldinni. Þar af voru þrjár milljónir gyðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×