Körfubolti

„Jonny Ice“ stóð undir nafni í bandaríska háskólaboltanum í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson.
Jón Axel Guðmundsson. Vísir/Getty
Íslenski körfuboltamaðurinn Jón Axel Guðmundsson heldur áfram að gera frábæra hluti í bandaríska háskólakörfuboltanum en hann átti heldur betur stórleik í nótt.

Jón Axel, eða „Jonny Ice“ eins og þeir kalla Grindvíkinginn, setti þá persónulegt met með því að skora 33 stig í 57-53 sigri Davidson á Wichita State en leikurinn var í Charleston Classic mótinu.

Það var frábær frammistaða Jóns á æsispennandi lokamínútum sem öðru fremur sá til þess að Davidson liðið vann leikinn.





Jón Axel hitti úr 9 af 14 skotum sínum utan af velli og setti niður 12 af 13 vítaskotum sínum. Hann var einnig með 8 fráköst, 3 stoðsendingar og spilaði flotta vörn.

Það er óhætt að segja að Jón Axel hafi tekið upp hanskann fyrir félaga sína í liðinu því hinir leikmenn liðsins hittu aðeins úr 10 skotum (26 prósent nýting) og skoruðu samtals bara 24 stig.

Jón Axel átti beinan þátt í 12 af 19 körfum Davidson með því annaðhvort að skora sjálfur eða gefa stoðsendingu.





Staðan var 45-48 fyrir Wichita State þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum en þá tók Jón Axel leikinn yfir.

Davidson vann síðustu fjórar mínútur leiksins 12-5 og skoraði íslenski bakvörðurinn síðustu tólf stig liðsins þar á meðal var ein þriggja stiga karfa og svo karfa og víti að auki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×