Erlent

Norska lögreglan áfram óvopnuð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Norskir lögreglumenn að störfum í Osló.
Norskir lögreglumenn að störfum í Osló.
Lögreglumenn í Noregi verða áfram óvopnaðir á almannafæri, samkvæmt nýrri ákvörðun norsku ríkisstjórnarinnar. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. 

Vopnaburður lögreglu hefur lengi verið heitt deilumál í Noregi en norskir lögreglumenn eru ásamt þeim íslensku þeir einu á Norðurlöndunum sem ekki bera byssur á almannafæri. Af öðrum Evrópulöndum er það einnig á Bretlandi og Írlandi sem lögreglan er almennt óvopnuð á götum úti. 

Bent hefur verið á það í umræðu í norskum fjölmiðlum að einu aðalflugvellir Evrópuríkja, þar sem ekki sjást vopnaðir lögreglumenn, séu í Noregi og á Íslandi, Gardermoen og Keflavíkurflugvöllur. 

Þótt byssurnar séu ekki sýnilegar dags daglega er norska lögreglan þó vel vopnum búin, skammbyssuhólf er í lögreglubílum og vopnageymslur á lögreglustöðvum, og norskir lögreglumenn hljóta mikla þjálfun í beitingu skotvopna, sem gripið er til þegar ógn steðjar að. 

Nú hefur reynt á málið innan nýrrar ríkisstjórnar Noregs. Forystuflokkar stjórnarinnar, Hægriflokkurinn og Framfaraflokkurinn, hafa viljað stíga skrefið til fulls og láta lögreglumenn bera skammbyssur á almannafæri. Nýr samstarfsflokkur þeirra, sem kom inn í stjórnina í síðasta mánuði, Venstre-flokkur Trine Skei Grande, sagði hins vegar þvert nei og fékk því framgengt að lögreglumenn í Noregi verða áfram óvopnaðir næstu fjögur ár hið minnsta, að því er norska ríkisútvarpið NRK greindi frá.

Þó eru á þessu undantekningar. Vopnaburður verður leyfður á viðkvæmum stöðum, eins og flugvöllum og lestarstöðvum, en þá samkvæmt áhættumati. 

Það fylgir sögunni að hættan á hryðjuverkum í Noregi hefur nú verið endurmetin, og telst nú minni en áður. Í fyrra var hryðjuverk talið líklegt en telst nú mögulegt. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×