Erlent

Þrjár klukkustundir af hópnauðgun á Indlandi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Fjögurra er leitað í tengslum við hópnauðgun á konum í Nýju Delí.
Fjögurra er leitað í tengslum við hópnauðgun á konum í Nýju Delí. Vísir/Getty
Sex karlmenn eru grunaðir um hópnauðgun á fimm konum sem starfa fyrir hjálparsamtökin Asha Kiran sem sérhæfa sig í baráttunni gegn mansali. Hjálparsamtökin eru starfrækt í þorpi í austurhluta Indlands.

Tveir mannanna hafa verið handteknir og ákærðir en lögreglan leitar enn hinna fjögurra. Auk þeirra tveggja sem voru handteknir var einn af stjórnendum skóla í þorpinu líka handtekinn. Talið er að hann búi yfir vitneskju um glæpinn auk þess að hafa hjálpað til við að fremja árásina á konurnar. CNN segir frá þessu.

Að sögn lögreglu átti árásin sér stað í þorpinu Kochang í Khunti-héraðinu sem er í námunda við svæðið þar aðrir hrottalegir glæpir hafa verið framdir nýlega. Í síðasta mánuði komu upp tvö tilvik þar sem unglingsstúlku var nauðgað og í henni kveikt með þeim afleiðingum að hún dó af sárum sínum.

Hugsjónarkonurnar fimm, sem beita sér gegn mansali, eru útskrifaðar af spítalanum en dvelja nú í kvennaathvarfi. Konunum hefur verið útveguð lögregluvernd og áfallahjálp.

Árásin átti sér stað þegar konurnar túlkuðu og fluttu leikrit fyrir gangandi vegfarendur í þorpinu. Verkið fjallaði um mansal og átti að vera til vitundarvakningar um alvarleika málefnisins. Í miðju leikriti réðust nokkrir vopnaðir karlmenn að konunum og teymdu þær með sér inn í nærliggjandi skóg. Þar urðu þær fyrir barsmíðum og nauðgunum. Þeim var síðan sleppt lausum þremur klukkustundum síðar.

Þessi grimmúðlega árás er ein af fjölmörgum sem hefur átt sér stað á Indlandi og komið hefur illa við samvisku samfélagsins. Í kringum hundrað kynferðisofbeldisbrot eru tilkynnt til lögreglunnar á Indandi dag hvern.


Tengdar fréttir

Dauðarefsing við nauðgunum á Indlandi

Ríkisstjórn Indlands hefur samþykkt dauðarefsingu fyrir nauðgara sem hafa nauðgað stúlkum yngri en 12 ára. Á sama tíma var lágmarksrefsing fyrir nauðganir hækkuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×