Þungavigtarbelti UFC er undir þegar Stipe Miocic, núverandi meistari, mætir Francis Ngannou í aðalbardaga kvöldsins á UFC 220 sem fer fram í Boston aðfaranótt sunnudags.
Að venju var bardagakvöldið tekið fyrir í Búrinu sem er á dagskrá á Stöð 2 Sport klukkan 21.10 í kvöld. Augu flestra munu vitanlega beinast að bardaga Miocic og Ngannou.
„Miocic hefur verið frábær undanfarin ár,“ sagði Pétur Marinó Jónsson í þættinum. „Hann er með fimm sigra í röð eftir rothögg. Alltaf spái ég samt gegn honum en Miocic er oft vanmetinn, sérstaklega hjá veðbönkum. Það eru til dæmis meiri líkur á því að hann tapi, sem er óvenjulegt þegar um ríkjandi meistara er að ræða.“
Maðurinn sem hann berst við er þó engin smá smíði. Kamerúnmaðurinn Francis Ngannou hefur komið inn í UFC af miklum krafti en hann hefur æft blandaðar bardagaíþróttir í aðeins fjögur ár.
„Þetta er svona gæi sem þú myndir búa til í UFC tölvuleiknum,“ sagði Guttormur Árni Ársælsson. „Saga hans er ótrúlegt. Hann bjó í Kamerún og starfaði við það að moka sand.“
Sjáðu innslagið allt hér fyrir neðan.
Sport