Erlent

Borðuðu einu sinni á dag og fóru tvisvar á ári í sturtu

Samúel Karl Ólason skrifar
Louise Anna Turpin er 49 ára og David Allen Turpin er 57 ára.
Louise Anna Turpin er 49 ára og David Allen Turpin er 57 ára. Vísir/AFP
Systkinin þrettán sem haldið var föngum á heimili þeirra í Kaliforníu fengu einungis einu sinni að borða á dag og fengu að fara í sturtu tvisvar sinnum á ári. Foreldrar þeirra, þau David Allen Turpin og Louise Anna Turpin, munu fara fyrir dómara í dag þar sem búist er við því að þau verði ákærð fyrir pyntingar og að stofna lífi barna í hættu.

Þau hjón voru handtekin í gær eftir að 17 ára dóttir þeirra flúði af heimilinu og sagði lögregluþjónum að tólf systkini hennar væri haldið föngum. Í ljós kom að einhver þeirra voru hlekkjuð við rúm og læst inni.

Systkinin eru tveggja til 29 ára gömul.

Samkvæmt frétt NBC voru þau öll flutt á sjúkrahús vegna mikillar vannæringar og fá þau sýklalyf, vítamín og næringarefni, samkvæmt heimildarmanni NBC. Þá verða sálfræðingar fengnir til að greina þau og vinna með þeim.

Sjá einnig: Nágrannar höfðu ekki hugmynd um að börn væru í húsinu



Móðir David Allen segir fjölskylduna hafa verið hamingjusama þegar hún og eiginmaður hennar heimsóttu þau í Kaliforníu fyrir sex árum.

„Þau voru eins og hver önnur fjölskylda,“ sagði Betty Turpin við fjölmiðla. „Þau voru í svo góðu sambandi. Ég er ekki að búa þetta til. Þessir krakkar, okkur þótti þetta frábært. Þau voru elskan þetta og elskan hitt við hvort annað.“



Betty sagði einnig að hún og eiginmaður sinn væru í losti yfir fregnum af því sem sonur hans og tengdadóttir eru sökuð um. Þá sagði hún að sonur hennar hefði sagt henni að þau hefðu eignast svo mörg börn af því að guð ætlaðist til þess.

Ekki liggur fyrir hvað leiddi til þess að hjónin fóru svona með börn sín og segir lögreglan að hún hafi aldrei verið kölluð að heimili þeirra. Þá liggur einnig ekki fyrir af hverju dóttir þeirra tók til þess ráðs að flýja af heimilinu og hafa samband við lögreglu eftir að systkinin höfðu þagað yfir í ástandinu um langt skeið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×