KR vann sinn annan sigur í Pepsi-deild kvenna er liðið snéri við taflinu gegn ÍBV á heimavelli. Íslandsmeistarar Þór/KA lentu í engum vandræðum með Grindavík.
ÍBV komst yfir í Frostaskjólinu með marki frá Sigríði Láru Garðarsdóttur og í upphafi síðari hálfleiks tvöfaldaði Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir forystuna.
Þá héldu flestir að botnlið KR myndi ekki gera mikið en annað kom á daginn. Shea Connors jafnaði á 51. mínútu og fjórum mínútum síðar jafnaði Shea metin.
Það var svo sautján mínútum fyrir leikslok er fyrrum landsliðskonan, Katrín Ómarsdóttir, tryggði KR sigurinn og lokatölur 3-2.
Þrátt fyrir sigurinn er KR enn í botnsæti deildarinnar með sex stig en nálgast nú verulega liðin fyrir ofan. Nú eru einungis þrjú stig í FH og Grindavík sem eru í sjöunda og áttunda sæti.
ÍBV er hins vegar í alls konar vandræðum. Liðið er í fimmta sætinu með ellefu stig og hefur einungis unnið einn af síðustu sex leikjum í deild og bikar.
Þór/KA burstaði Grindavík norðan heiða en lokatölur urðu 5-0 þrátt fyrir að staðan hafi einungis verið 1-0 í hálfleik.
Anna Rakel Pétursdóttir kom Þór/KA yfir og í síðari hálfleik bætti Sandra María Jessen við tveimur mörkum. Lára Einarsdóttir og Sandra Stephany Mayor gerðu sitt hvort markið.
Meistararnir eru á toppi deildarinnar með 26 stig og hafa ekki tapað leik í sumar en Breiðablik á leik til góða. Grindavík er í áttunda sæti, stigi frá fallsæti.
Úrslit og markaskorarar eru fengnir frá úrslit.net.
Ótrúleg endurkoma KR og auðvelt hjá meisturunum
Anton Ingi Leifsson skrifar
