Erlent

Trump vill ekki fyrirgefa Bannon

Samúel Karl Ólason skrifar
Stephen Bannon.
Stephen Bannon. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, vill ekki fyrirgefa Stephen Bannon fyrir ummæli hans í bókinni Fire and Fury þar sem hann gagnrýndi fjölskyldumeðlimi forsetans og sagði þá jafnvel hafa framið landráð. Bannon baðst afsökunar á þessum ummælum og sagði þau ekki höfð rétt eftir sér.

„Donald Trump yngri er bæði föðurlandsvinur og góður maður,“ sagði Bannon. Hann sagðist sjá eftir því að hafa verið svo lengi að svara þessum fregnum.

Sjá einnig: Bannon segir ummæli sín ekki beinast að Trump yngri



Undanfarna daga hefur Trump farið hart fram gegn Bannon og meðal annars kallað hann „Sloppy Steve“. Hann segir Bannon hafa farið að gráta þegar hann var rekinn úr Hvíta húsinu og að hann hafi misst vitið. Þrátt fyrir afsökunarbeiðni Bannon verður honum ekki fyrirgefið.



„Ég tel enga leið fyrir Bannon að snúa aftur á þessum tímapunkti,“ sagði aðstoðarupplýsingarfulltrúi Trump, Hogan Gidley, við blaðamenn nú í kvöld. Hann sagði Trump hafa verið mjög skýran varðandi reiði sína út í Bannon vegna ummælanna.



Sjá einnig: Bannon segir umdeildan fund Trump yngri vera landráð



„Þegar þú ræðst gegn fjölskyldu einhvers, eins og hann gerði, tvö af börnum forsetans sem þjóna þessari þjóð og fórna með þjónustu sinni. Það er ógeðslegt,“ sagði Gidley.

Stephen Bannon missti einnig stuðning bakhjarls síns, milljónamæringsins Rebekah Mercer, og fregnir hafa borist um að til standi að bola honum úr sessi hjá Breitbart. Miðlinum sem hann stýrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×