Suður-Kóreumenn hafa lýst einskærum vilja til að setjast niður með nágrönnum þeirra í norðri og ræða hið ískalda samband ríkjanna. Viðræðuboðið kemur í kjölfar ummæla Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, sem sagðist hafa í hyggju að senda íþróttamenn frá ríki sínu á Vetrarólympíuleikana sem fram fara í Suður-Kóreu í febrúar. Fulltrúar ríkjanna ættu því að „hittast hið snarasta og ræða möguleikann“ á þátttöku þeirra.
Forseti Suður-Kóreu tekur boðinu fagnandi og segist líta á það sem tækifæri til að ræða um fleira en Vetrarólympíuleikana; svo sem samband ríkjanna sem ekki er upp á marga fiska.
Sameiningarmálaráðherra Suður-Kóreu lagði til í morgun að viðræðurnar færu fram í borginni Panmunjoum. Hún stendur á landamærum ríkjanna og fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að hún gangi undir nafninu „Vopnahlésborgin.“ Þar hafa margar af fyrri viðræðum ríkjanna farið fram en þær síðust áttu sér stað árið 2015.
Suður-Kóreumenn vona að viðræðurnar geti farið fram þann 9. janúar næstkomandi en ekki er enn vitað hverjir munu verða viðstaddir enda hafa fulltrúar Norður-Kóreu ekki brugðist við boðinu. Miklar vonir eru þó bundnar við hinar hugsanlegu viðræður enda hefur kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu tekið stórstígum framförum frá því að fulltrúar ríkjanna settust síðast niður saman.
Vetrarólympíuleikarnir gætu þítt frostið
Stefán Ó. Jónsson skrifar
