Stjórnvöld í Norður-Kóreu vilja fjöldaframleiða kjarnorkuvopn og opna á viðræður við nágrannana í suðri. Þetta var á meðal þess sem fram kom fram í nýársávarpi Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu.
„Kjarnorkuvopn okkar geta náð Bandaríkjunum öllum og hnappurinn er ávallt á skrifborði mínu. Það er raunveruleikinn, ekki hótun,“ sagði leiðtoginn. BBC greinir frá þessu.
Kim Jong-un sagði enn fremur að úr því sem komið er geti Bandaríkin aldrei hafið stríð gegn Norður-Kóreu, nú þegar langdrægar eldflaugar Norður-Kóreu geti skotið á hvaða skotmörk sem er á meginlandi Bandaríkjanna.
Áfram verði unnið að fjöldaframleiðslu kjarnorkuvopna og langdrægum eldflaugum. „Þessi vopn verða einungis notuð ef öryggi okkar er ógnað,“ sagði Kim Jong-un í ávarpi sínu sem sýnt var í sjónvarpi.
Hann opnaði á viðræður við Suður-Kóreumenn og sagðist vilja bæta samskiptin milli ríkjanna og draga úr hernaðarlegri spennu. Þá talaði hann vel um Vetrarólympíuleikana sem hefjast í Suður-Kóreu í næsta mánuði.

