Erlent

Foreldrarnir neita sök: Sum barnanna skert á vitsmunum og með taugaskaða eftir ofbeldið

Birgir Olgeirsson skrifar
Louise og David Turpin þegar þau voru leidd fyrir dómara í dag.
Louise og David Turpin þegar þau voru leidd fyrir dómara í dag. Vísir/EPA
Foreldrarnir sem sakaðir eru um að hafa haldið þrettán börnum sínum föngnum á heimili þeirra í Kaliforníu í Bandaríkjunum hafa neitað sök.

Greint er frá þessu á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC í kvöld en þar segir að David og Louise Turpin séu sökuð um pyntingar, misþyrmingar og frelsissviptingu.

Þau voru handtekin eftir að sautján ára gömul dóttir þeirra náði að flýja heimilið og gera lögreglu viðvart um málið. Lögreglan sagði stúlkuna hafa litið út fyrir að vera tíu ára gamla sökum vannæringar og illrar meðferðar sem hún hafði hlotið á heimili sínu.

Þegar lögreglan fór inn á heimili hjónanna fann hún þar fyrir 12 systkini stúlkunnar við ömurlegar aðstæður en sum þeirra voru hlekkjuð við rúm.

Heimili hjónanna þar sem börnunum var haldið.Vísir/Getty
Héraðssaksóknari í Riverside-sýslu hefur lesið upp þau atriði sem Turpin-hjónin eru sökuð um. Eru þau sögð hafa refsað börnunum sínum með því að binda þau föst, fyrst með reipi en seinna meir með keðjum sem þau festu með hengilásum.

Saksóknarinn sagði þessar refsingar hafa staðið yfir vikum saman, jafnvel mánuðum, og urðu þær harðari eftir því sem leið á.

Hann bætti því að börnin hefðu ekki einu sinni fengið að fara á salernið á meðan refsingunni stóð.

Börn hjónanna eru á aldrinum tveggja til 29 ára en þau hafa verið vistuð á sjúkrahúsi síðan þau voru frelsuð.

Börnin þurftu að þola reglulegar barsmíðar, þar á meðal kyrkingar. Þau fengu aðeins að fara í sturtu einu sinni á ári. Börnin vöktu á næturnar og sváfu á daginn, þau máttu ekki leika sér með leikföng og fundust leikföng fyrir utan heimili þeirra sem voru ennþá í pakkningunum.

Ef börnin þvoðu hendur sínar fyrir ofan úlnlið voru þau sökuð um að leika sér að vatninu og var refsað.

Foreldrarnir leyfðu þeim aðeins að borða eina máltíð á dag og áttu það til að kaupa köku og koma henni fyrir þar sem börnin sáu en máttu alls ekki borða.

Frá blaðamannafundi þar sem héraðssaksóknari las upp ásakanir á hendur hjónunum.Vísir/Getty
Börnin hafa aldrei farið til tannlæknis og fóru síðast til læknis fyrir fjórum árum. Börnunum skortir alla grunnþekkingu á daglegu lífi og vissu til dæmis ekki hvað lögregluþjónn var.

Barnið sem er tveggja ára gamalt var í eðlilegri þyngd en öll systkini þess voru vannærð.

Barn hjónanna sem er tólf ára gamalt var jafn þungt og sjö ára gamalt barn og barn hjónanna sem er 29 ára gamalt var aðeins 37 kíló.

Nokkur þeirra eru skert á vitsmunum og hafa hlotið taugaskaða vegna ofbeldis sem þau urðu fyrir.

Sum þeirra gátu lesið og skrifað en lögreglan komst yfir dagbækur sem börnunum var leyft að halda.

Áður en þau fluttu til Kaliforníu bjuggu þau í Texas. Á einum tímapunkti í lífi þeirra bjuggu foreldrarnir í öðru húsi og komu reglulega við með mat.

Ef hjónin verða fundin sek þá eiga þau yfir höfði sér 94 ára fangelsisvist í það minnsta og allt að lífstíðar fangelsisvist.

David Turpin á einnig yfir höfði sér ásökun um ósæmilega hegðun í garð barns undir fjórtán ára aldri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×