Viðskipti innlent

Stytta vinnuvikuna um fimm tíma

Atli Ísleifsson skrifar
Leikskólarnir sem um ræðir eru Mánagarður, Sólgarður og Leikgarður.
Leikskólarnir sem um ræðir eru Mánagarður, Sólgarður og Leikgarður. Vísir/Vilhelm
Leikskólar sem reknir eru af Félagsstofnun stúdenta munu stytta vinnuviku starfsmanna sem nemur um fimm klukkustundum, niður í 35 tíma.

Þetta kemur fram í tilkynningu þar sem segir að launaskerðing verði engin. Markmiðið með styttingu vinnuvikunnar er sögð vera að stuðla að „auknu jafnvægi á milli atvinnu og einkalífs starfsfólks og þannig efla lífsgæði þess.“ Nýtt fyrirkomulag hefst 1. febrúar næstkomandi og verður endurskoðað 1. ágúst í sumar.

„Reynsla af tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar frá bæði Noregi og Íslandi hefur verið jákvæð. Sú hugmyndafræði að stuðla að betra jafnvægi á milli starfs og fjölskyldulífs hefur skilað sér í meiri starfsánægju fólks, en ekki síst aukinni ánægju í fjölskyldulífi,“ segir í tilkynningunni.

Unnið að fjölgun plássa

Leikskólarnir sem um ræðir eru Mánagarður, Sólgarður og Leikgarður, en þar starfa 55 starfsmenn og er pláss fyrir 183 börn á aldrinum sex mánaða til fimm ára. Vinna við stækkun á leikskólanum Mánagarði stendur nú yfir og að henni lokinni verður hægt að bjóða 128 börnum pláss, í stað 68 í dag.

Haft er eftir Sigríði Stephensen, leikskólafulltrúa og leikskólastjóra á Sólgarði, að stöðugt sé verið að leita leiða til að efla ánægju og kjör starfsfólks. „Þetta verkefni hefur verið lengi í undirbúningi, en okkar von er sú að þetta muni hafa margþættan ávinning fyrir okkur hér á leikskólunum. Fyrir utan meiri lífsgæði, betri kjör og betri líðan starfsfólks vonumst við einnig til að þetta muni skila jákvæðum niðurstöðum hvað varðar minni starfsmannaveltu, en stöðuleiki í starfsmannaveltu skilar sér í betri þjónustu við foreldra og börn. Þetta hefur fengið afar góðar undirtektir hjá okkar starfsfólki og við erum því mjög spennt fyrir þessum breytingum.“

Við styttingu fullrar vinnuviku niður í 35 stundir verður rúllandi vaktafyrirkomulagi komið á sem verður skipulagt fram í tímann. Miðað er við að vinnuskylda muni minnka um eina klukkustund á dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×