Enski boltinn

Skuggi á hús einnar fjölskyldu gæti eyðilagt drauma Abramovich

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Svona á nýi leikvangurinn að líta út, fái áætlanir að standa
Svona á nýi leikvangurinn að líta út, fái áætlanir að standa mynd/chelsea
Roman Abramovich, eigandi enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea, er með áætlanir um byggingu glæsilegs nýs leikvangs sem mun kosta í kringum milljarð punda og verða dýrasti leikvangur í Evrópu. Þær áætlanir eru hins vegar í hættu vegna einnar fjölskyldu sem býr í nágrenni Stamford Bridge.

Fjölskyldan, sem hefur búið á heimili sínu í vestur Lundúnum í hálfa öld, setti inn formlega kvörtun vegna byggingaráætlananna í maí vegna þess að nýi leikvangurinn mun varpa varanlegum skugga á heimili þeirra.

Búið var að samþykkja bygginguna í deilisskipulagi borgarinnar og hefur borgarstjóri Lundúna gefið grænt ljós á framkvæmdirnar. Forráðamenn Chelsea leita nú ráða hjá bæjaryfirvöldum og funda fulltrúar Hammersmith og Fulham á mánudag til að skera út um hvað skuli aðhafast.

Chelsea bauð Crosthwaites fjölskyldunni sárabætur sem sagðar eru ganga á hundruðum þúsunda punda, en þær urðu ekki til þess að fjölskyldan tæki kvörtun sína til baka.

„Byggingin hefur óásættanleg og skaðleg áhrif á Kensington- og Chelsea hverfin,“ sagði Rose, dóttir Crosthwaites hjónanna í bréfi til stuðnings máls þeirra.

Fjölskyldan vill þó ekki bera sig á móti endurbótum á Stamford Bridge, heldur aðeins að austurstúkan verði endurhönnuð svo hún trufli síður.

Enn á eftir að koma í ljós hvort Abramovich geti haldið áfram með endurbæturnar á Stamford Bridge, en leikvangurinn tekur í dag aðeins 41 þúsund manns í sæti, samanborið 60 þúsund sætum Emirates vallarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×