Erlent

Hátt í tuttugu fórust í bílsprengjuárás við sendiráð í Kabúl

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjálfboðaliðar bera lík af vettvangi sjálfsmorðssprengjuárásarinnar í Kabúl.
Sjálfboðaliðar bera lík af vettvangi sjálfsmorðssprengjuárásarinnar í Kabúl. Vísir/AFP
Að minnsta kosti sautján manns létu lífið og 110 særðust þegar sprengja sem hafði verið falin í sjúkrabíl sprakk við eftirlitsstöð lögreglu í sendiráðshverfi í Kabúl, höfuðborg Afganistan í dag.

Mirwais Yasini, þingmaður sem varð vitni að sprengingunni, segir að að sjúkrabíllinn hafi sprungið í loft upp þegar hann nálgaðist eftirlitsstöðina nærri nokkrum sendiráðum erlendra ríkja, að því er segir í frétt Reuters.

BBC segir að fjölmargir hafi verið á ferðinni í hverfinu þegar sprengjan sprakk. Reykjarmökkur eftir hana hafi sést víða í borginni. Embættismenn segja líklegt að tala látinna eigi eftir að hækka.

Talibanar hafa lýst yfir ábyrgð á ódæðinu. Þeir stóðu einnig fyrir árás sem felldi fleiri en tuttugu manns á Intercontinental-hótelinu í borginni fyrir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×