Erlent

Hillary Clinton kaus að halda ráðgjafa sem áreitti unga konu

Kjartan Kjartansson skrifar
Clinton bauð sig fram í forvali demókrata fyrir forsetakosningarnar árið 2008 en beið lægri hlut fyrir Barack Obama.
Clinton bauð sig fram í forvali demókrata fyrir forsetakosningarnar árið 2008 en beið lægri hlut fyrir Barack Obama. Vísir/Getty
Háttsettur ráðgjafi framboðs Hillary Clinton í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2008 hélt áfram að starfa við framboðið eftir að hann var sakaður um hafa ítrekað áreitt unga konu. Clinton ákvað sjálf að halda ráðgjafanum frekar en að reka hann.

New York Times greinir frá því að þrítug kona sem vann við framboðið og deildi skrifstofu með Burns Strider, ráðgjafa Clinton í trúmálum, hafi sakað hann um að hafa nuddað á henni axlirnar á óviðeigandi hátt, kysst hana á ennið og sent henni kynferðislega tölvupósta.

Heimldarmenn blaðsins segja að kosningastjóri Clinton hafi mælt með því að Burns yrði rekinn. Clinton hafi hins vegar kosið að halda honum í starfi. Hann var sektaður um nokkra vikna laun og skipað að gangast undir meðferð. Konan var færð til í starfi.

Strider, sem sendi Clinton meðal annars ritningartexta á hverjum morgni á meðan á framboðinu stóð, var síðar ráðinn til óháðra samtaka sem studdu forsetaframboð Clinton árið 2016. Stofnandi þeirra er náinn bandamaður Clinton. Strider var rekinn nokkrum mánuðum eftir að hann var ráðinn árið 2013. Þá hafði hann meðal annars verið sakaður um að áreita unga aðstoðarkonu kynferðislega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×