Erlent

Mannskæðasti bruni í Suður-Kóreu í áratug

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Myndir frá vettvangi sýna mikinn reyk og slökkviliðsmenn bjarga sjúklingum út úr byggingunni.
Myndir frá vettvangi sýna mikinn reyk og slökkviliðsmenn bjarga sjúklingum út úr byggingunni. Vísir/Epa
Að minnsta kosti fjörutíu og einn er látinn og rúmlega sjötíu slasaðir eftir mikinn bruna sem kom upp á sjúkrahúsi í Suður-Kóreu í nótt.

Svo virðist sem eldurinn hafi blossað upp á bráðadeild spítalans, sem er í borginni Miryang, en um 200 sjúklingar voru inni í byggingunni. Borgin er um 270 kílómetra suðaustur af höfuðborginni Seúl.

Þetta er mannskæðasti bruni í Suður-Kóreu í áratug og óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka enn frekar, þar sem margir hinna slösuðu eru í alvarlegu ástandi.

Flestir hinna látnu virðast hafa dáið úr reykeitrun, að því er slökkviliðsmenn á staðnum segja í samtali við Yonhap fréttastofuna.

Skemmdir á spítalanum og nærliggjandi dvalarheimili eru miklar.Vísir/epa
Eldsupptök eru enn ókunn að sögn slökkviliðsstjórans Choi Man-woo. „Hinir látnu höfðu verið á spítalanum og á samliggjandi dvalarheimili. Einhverjir létust þegar var verið að flytja þá á annað sjúkrahús,“ segir slökkviliðsstjórinn. Hann bætir við að eldurinn hafi komið upp um klukkan 07:30 að staðartíma og að um þrjár klukkustundir hafi tekið að slökkva eldinn.

Slökkviliðsmönnum tókst að bjarga rúmlega 90 manns af dvalarheimilinu áður en það varð eldinum að bráð.

Forseti Suður-Kóreu, Moon Jae-in, boðaði til neyðarfundar í ríkisstjórn sinni þar sem næstu skref voru rædd. Fjölmargir embættismenn fóru til borgarinnar og vottuðu aðstandendum samúð sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×