Erlent

„Óeirðir“ í frönskum matvöruverslunum vegna Nutella

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Nutella er súkkulaðismjör sem er vinsælt að setja á til dæmis brauð og vöfflur.
Nutella er súkkulaðismjör sem er vinsælt að setja á til dæmis brauð og vöfflur. vísir/getty
70 prósent afsláttur sem franska verslunarkeðjan Intermarché hefur boðið af súkkulaðismjörinu Nutella undanfarið hefur leitt til handalögmála þar sem viðskiptavinir hafa bókstaflega slegist um krukkur af þessu gómsæta áleggi.

 

Verðið á krukkunni fór úr 4,50 evrum í 1,40 evrur og var lögreglan kölluð út í einni verslun þegar fólk byrjaði að slást og ýta við hvort öðru til að ná sér í sitt Nutella.

„Þau eru eins og óargadýr. Það var rifið í hárið á einni konu [...] og önnur var með blóðuga hönd,“ sagði viðskiptavinur þegar hann lýsti ástandinu í einni af verslunum Intermarché að því er fram kemur í frétt BBC.

„Við vorum að reyna að komast á milli viðskiptavinanna en þeir ýttu okkur bara,“ sagði starfsmaður í annarri verslun Intermarché þar sem allt Nutella kláraðist á innan við korteri. Einn viðskiptavinur fékk glóðarauga í barningnum en ekki fylgir sögunni hvort hann hafi náð að næla sér í Nutella.

 

Svipaða sögu er að segja úr verslunum Intermarché víða um Frakkland og hafa margir lýst þessu ástandi hreinlega sem „óeirðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×