Erlent

Netverjar prjóna fyrir forsætisráðherrann

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jacinda Ardern er yngsti forsætisráðherra í sögu Nýja-Sjálands, 37 ára.
Jacinda Ardern er yngsti forsætisráðherra í sögu Nýja-Sjálands, 37 ára.
Ný-sjálensk hannyrðakona hratt af stað prjónabylgju um víða veröld eftir að fregnir bárust af þungun forsætisráðherrans Jacindu Ardern.

Ardern tilkynnti í síðustu viku að hún og eiginmaður hennar ættu von á fyrsta barni sínu í júní næstkomandi. Hún naut gríðarlegra vinsælda í aðdraganda kosninganna undir lok síðasta árs þannig að talað var um Jacindu-æði í Nýja-Sjálandi.

Tíðindi vöktu gríðarlega athygli, sem og lukku í heimalandinu Nýja-Sjálandi, og lét hin fingrafima Heather McCracken sig málið varða. Á Twitter-síðu sinni tjáði hún netheimi að hana langaði að prjóna fyrir barn forsætisráðherrans - en gefa flíkurnar síðan til góðagerðamála. Hún hafi hugsað með sér: „barnið hennar mun eflaust fá fullt af fínum hlutum á meðan önnur börn þurfa á hlýjum fötum að halda þegar þau yfirgefa fæðingardeildina,“ skrifaði McCracken í færslu sinni.

Með færslunni deildi hún mynd af húfu sem hún merkti með myllumerkinu #knitforjacinda, eða #prjónaðfyrirjacindu.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa, fjölmargir netverjar lýstu yfir þátttöku í prjónaherferðinni. Í samtali við breska ríkisútvarpið segir McCracken að hana hafi ekki grunað að uppátæki hennar myndi vekja slíka athygli.

„Mér þótti bara svo gaman að heyra fréttir af þunguninni og mig langaði að búa til litla gjöf,“ segir McCracken og bætir við að ekki hafi liðið á löngu áður en hún vildi heldur gefa hana einhverjum sem hefði fyrir gjöfina meiri þörf.

Sjá einnig: Yngsta konan í ráðherrasætinu

Það eru þó ekki bara Ný-sjálendingar sem taka þátt í herferðinni, borist hafa skeyti með fyrirspurnum hvaðanæva að, til að mynda frá grannríkinu Ástralíu.

Áhugasamir hafa verið hvattir til að senda handverkið á barnadeild Middlemore-spítalans í Auckland.

Forsætisráðherrann hefur ekki gefið upp kyn barnsins og segir hún það vera vegna þess að hún vill ekki drukkna í fötum sem ætluð eru sérstaklega einhverju kyni.


Tengdar fréttir

Yngsta konan í ráðherrasætinu

Jacinda Ardern, formaður Verkamannaflokksins á Nýja-Sjálandi, verður yngsti kvenkyns forsætisráðherrann í sögu ríkisins. Þetta varð ljóst eftir að Winston Peters, formaður flokksins Nýja-Sjáland fyrst, tilkynnti að flokkur hans hefði ákveðið að ganga í ríkisstjórnarsamstarf með Verkamannaflokknum.

Forsætisráðherrann verður móðir

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Arden, tilkynnti í gær að hún eigi von á barn með eiginmanni sínum, Clark Gayford




Fleiri fréttir

Sjá meira


×